Morgunblaðið - 18.04.2001, Blaðsíða 75
BRÉF TIL BLAÐSINS
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 18. APRÍL 2001 75
ÉG VINN á leikskóla og er búin að
vera þar frá því um miðjan janúar.
Þar starfa ég sem leiðbeinandi. Þeg-
ar ég fékk fyrsta launaseðilinn minn
var ég ekki viss um hvort ég ætti að
hlæja eða gráta; svo fáránlegur var
hann. Eftir að hafa unnið við ansi
margt og misjafnt um ævina eru
þetta þær allra lægstu útborganir
sem ég hef haft fyrir fulla vinnu. Er
þetta nú mönnum bjóðandi?
En hvers vegna eru launin svona
lág? Er það vegna þess að margir
leikskólastarfsmenn eiga maka sem
sjá fyrir þeim? Eða hafa starfsmenn-
irnir einfaldlega ekki efni á því að
fara í almennilegt verkfall? Látum
við konur kannski bara alltaf vaða
yfir okkur í launamálunum eins og
margar kannanir sýna? Hvað sem
því líður eru launin til háborinnar
skammar miðað við hvað þetta er
mikilvægur staður í þjóðfélaginu.
Leikskólinn er eins og þið sjálf vit-
ið manna best eitt það allra mikil-
vægasta í þjóðfélaginu og getur
skipt sköpum fyrir marga einstak-
linga. Þar er einnig nauðsynlegt að
hafa gott og áreiðanlegt fólk í vinnu,
bæði konur og karlmenn. Til þess að
rétta fólkið komi til þess að vera, og
auðvitað umbuna þeim sem haldast í
starfinu, þarf líka að greiða þeim al-
mennileg laun.
Nú er þetta þannig vinna að ekki
eru þeir möguleikar fyrir hendi að fá
að vinna mikla yfirvinnu og því er
það augljóst að launin þurfa að vera
hærri en ella.
Að láta fólki í té laun sem ekki er
hægt að eiga í sig og á fyrir, hvað þá
fjárfesta í þaki yfir höfuðið, það hlýt-
ur að vera mannréttindabrot. Ef fólk
getur t.d. ekki fengið húslán sökum
þess hversu lág laun það hefur, sér
það hver maður að eitthvað er rangt.
Fólk þarf að vinna á fleiri stöðum
til þess að geta lifað af, sem aftur
þýðir að það kemur fram sem minni
orka og framlag í störfum þess í leik-
skólanum.
Það hefur löngum þótt „ágætur
siður“ að hækka laun lægst launuðu
einstaklinganna í þjóðfélaginu dálít-
ið og svo hækka allar nauðsynjavör-
ur svipað. En er það ekki augljóst að
við það erum við enn þá að hjakka í
sama farinu? Hvernig væri þá heldur
að hækka launin almennilega? Í
þessu tilfelli myndi það hafa ekkert
nema jákvætt að segja. Það myndu
fleiri sækja í að vinna á leikskóla,
hægt væri að velja á milli starfsfólks,
það væru ekki eins tíð mannaskipti
sem eru auðvitað slæm fyrir börnin
að upplifa og starfsfólk væri fullt af
orku og vilja til þess að ala upp börn-
in sem síðar eiga eftir að taka við
þjóðfélaginu. Fyrir utan að það
myndu alveg örugglega fleiri karl-
menn sækja í að vinna á leikskóla
sem væri mjög jákvætt að öllu leyti.
En eins og málin standa í dag er
skömm að þessu. Hefur einhver
samvisku í að vaða endalaust yfir alla
þessa velviljuðu, færu starfsmenn
sem vinna allt að því sjálfboðaliða-
störf á leikskólum landsins? Þeir
sem berjast við það hverja stund,
hvern dag, hverja viku að ala upp
börnin og leggja grunn (ásamt for-
eldrum) að þjóðfélagsvænum ein-
staklingum.
Við vitum það öll að foreldrar vilja
ekkert frekar en að vita af börnunum
sínum í öruggum höndum traustra
góðviljaðra starfsmanna sem eru oft
börnunum ein mikilvægasta fyrir-
myndin.
Ég vona innilega að það sé einhver
þarna úti sem á eftir að íhuga þessi
orð mín alvarlega og gera eitthvað
róttækt í málunum. Því eins og
stendur réttilega á einni síðunni í
leikskólakladdanum þá er það ekki
illgresið sem kæfir jurtina heldur
hirðuleysi garðyrkjumannsins.
HALLA KJARTANSDÓTTIR,
Skipholti 3, 105 Rvk.
Í leikskóla er gaman! Eða hvað?
Frá Höllu Kjartansdóttur:
Morgunblaðið/Ásdís
Leikskólinn getur skipt sköpum fyrir marga einstaklinga eins og bréfritari drepur á. Hér eru yngismeyjar sem
áreiðanlega myndu skrifa undir þá skoðun með honum.
ÉG VAR einn þeirra er sóttu aðal-
fund Geðhjálpar, laugardaginn 31.
mars sl. Ég hef ekki verið félags-
maður í Geðhjálp, en um árabil
fylgst með starfsemi félagsins úr
fjarlægð. Um nokkra mánaða skeið
hafði ég verið að heyra um spennu
milli starfsmanna og stjórnar Geð-
hjálpar. Heyrst hafði að stafsmönn-
um væri vikið úr starfi, fyrirvara-
laust, en samt þurft að greiða þeim
laun í uppsagnarfresti. Lítur út fyr-
ir að slíkir stjórnunarhættir hafi
kostað Geðhjálp vel á aðra milljón.
Ég hafði einnig heyrt, að starfs-
menn sem helgað höfðu skjólstæð-
ingum þessa félags starfskrafta
sína um árabil töldu líkur á að þeir
myndu missa starf sitt að afstöðn-
um þessum aðalfundi. Af öllum
þessum lausafregnum tók ég þá
ákvörðun að gerast félagsmaður í
Geðhjálp daginn fyrir aðalfund og
mætti til fundar rétt fyrir kl. 14:00.
Er ég kom í fundarasalinn var
þegar kominn nokkur fjöldi manna,
á að giska 150 manns. Fáir bættust
við eftir að ég kom; gætu hafa verið
10 manns. Vel mátti skynja spennu
í loftinu og fljótlega var mér réttur
miði með nöfnum fólks er byði sig
fram til stjórnarkjörs og starfs
fundarstjóra. Greinilegt var að mið-
inn var útbúinn af stuðningsmönn-
um þeirra sem þar buðu sig fram.
Eftir að hafa fengið mér eintak af
fundargögnum og séð að í skýrslu
stjórnar var stillt upp framboði
stjórnarfólks fannst mér ekkert
óeðlilegt að mótframboðið reyndi
að koma sér á framfæri við fund-
armenn með þessum hætti.
Fráfarandi formaður setti fund-
inn og bar upp tillögu um fund-
arstjóra. Kom þá fram tillaga um
annan fundarstjóra, svo kjósa
þurfti á milli þeirra. Varpaði for-
maður þá fram þeirri eðlilegu
spurningu, hvort allir sem væru á
fundinum væru skráðir félagsmenn
í Geðhjálp. Kom þá upp sá mis-
skilningur einhverra fundarmanna,
að þeir þyrftu ekki að vera félags-
menn; nóg væri að þeir vildu styðja
tilgang félagsins. Bað þá um orðið
sá maður sem formaður hafði til-
nefnt sem fundarstjóra. Bað hann
fólk að gæta stillingar og gerði til-
lögu um að fundi yrði frestað. Var
þeirri tillögu mótmælt af fjölmörg-
um fundarmönnum. Var þá borin
fram önnur tillaga, um að þeir sem
á fundinum væru og óskuðu að taka
taka þátt í fundarstörfum skráðu
sig í félagið áður en fundarstörf
hæfust eða vikju af fundi. Tók for-
maður undir þessa tillögu og mælt-
ist til að þeir sem ekki væru þegar
skráðir félagsmenn skráðu sig hjá
þeim aðila sem hún tilnefndi.
Er skráning hófst kom upp sá
orðrómur að einungis þeir sem
greitt hefðu félagsgjaldið hefðu
heimild til atkvæðagreiðslu. Skap-
aði þetta mikinn óróa meðal
skráðra félagsmanna sem höfðu
ekki greitt árgjaldið. Einkanlega
vegna þess að ekki var hægt að
greiða gjaldið á fundinum. Þar sem
þetta olli nokkurri spennu leit ég í
lög félagsins, sem voru meðal fund-
argagna. Í 5. og 6. gr. laganna er
fjallað um aðalfund. Þar er hvergi
minnst á að atkvæðisréttur sé
bundinn því að hafa greitt félags-
gjaldið. Er fólk gerði sér grein fyrir
þessu róaðist það og settist og beið
framhaldsins. Er skráningu nýrra
félaga var lokið tilkynnti formaður
að hún hefði ákveðið að fresta fundi
til 28. apríl nk. Að svo búnu gekk
hún á dyr.
Með formanninum gengu af fundi
um 30 manns og fáeinir gestir frá
öðrum félögum hurfu líka. Eftir sat
meginþorri fundarmanna, um 120
manns. Veltu menn fyrir sér heim-
ildum formanns til einhliða ákvörð-
unar um að fresta fundi. Voru
margir félagsvanir menn á því að
slíka ákvörðun þyrfti að bera undir
fundinn. Leit ég þá aftur í lög
félagsins og þar stendur í upphafi
5. greinar.
„Aðalfundur félagsins skal hald-
inn í marsmánuði ár hvert.“ Fund-
ardagurinn var 31. mars eða síðasti
dagur þess frests sem stjórn hafði
til að halda aðalfund. Ákvörðun um
frestun, fram yfir síðasta dag er lög
heimila frestun aðalfundar, verður
að sækja til félagsmanna með at-
kvæðagreiðslu á fundinum sem
þegar hafði verið settur. Slíkt var
ekki gert í þessu tilviki. Formað-
urinn hafði því fengið rangar leið-
beiningar frá „ráðgjöfum“ sínum.
Framhald fundarins var því tví-
mælalaust löglegt, enda meginþorri
fundarmanna andvígur frestun.
Harma ber þá lítilsvirðingu sem
fráfarandi formaður sýnir fundar-
mönnum með ummælum sínum í
fjölmiðlum. Áfengislykt var finnan-
leg af einum manni, sem mér skilst
að starfi eitthvað fyrir Geðhjálp.
Hann ræddi reyndar mikið við for-
manninn í því hléi sem varð meðan
fólk skráði sig í félagið. Kannski
hefur þá þyrmt yfir formanninn.
Engin læti urðu á fundinum, um-
fram eðlileg mótmæli við umdeil-
anlegum athöfnum. Mér finnst því
fráfarandi formaður Geðhjálpar
skulda mér og meginþorra fund-
armanna afsökunarbeiðni, vegna
ósannra og ódrengilegra ummæla í
fjölmiðlum. Vonandi ber hún gæfu
til að gera það, svo henni verði sómi
að.
GUÐBJÖRN JÓNSSON,
Haukshólum 6, Reykjavík.
GeðhjálparfundurinnFrá Guðbirni Jónssyni:
Mikið úrval af gluggatjaldaefnum
Skipholti 17a, sími 551 2323
Við ráðleggjum
og saumum fyrir þig
Neðst við Dunhaga
sími 562 2230
Opið virka daga kl. 10–18
Opið laugardaga kl. 10–14
Bómullardragtir
frá kr. 16.200
– sérverslun – Fataprýði
Álfheimum 74, Glæsibæ, Reykjavík, sími 553 2347.
Glæsilegur sumarfatnaður
í nýju sumarlitunum - Gleðilegt sumar
Sérhönnun. St. 42-56