Morgunblaðið - 22.12.2001, Síða 43

Morgunblaðið - 22.12.2001, Síða 43
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. DESEMBER 2001 43 FIMMTÁN ára gamall ætlaði hann að taka þátt í ljóðasamkeppni, en komst ekki lengra en að setja saman eina vísu: Er alheimur dunar af orrustugný og allt er gengið úr skorðum, íslenzka þjóðin öðlast á ný þann arf sem hún glataði forðum. Þótt ekkert yrði úr þáttöku í sam- keppninni eða frekari yrkingum í bili, „nema einnota vísur til að stríða systkinunum“ blundaði rímið sterkt í honum. Það var svo ekki fyrr en á efri árum, að það fékk útrás að nýju og nú munaði um það; önnur ljóða- bók Kristjáns Árnasonar frá Skálá er nýkomin út. Kristján er fæddur 14. marz 1929 á Skarði í Lundarreykjadal, en kennir sig við Skálá í Sléttuhlíð í Skagafirði, þar sem hann hefur átt heima síðan 1975 og sinnt smíðum. Hann dvelur nú á elliheimilinu á Sauðárkróki. „Faðir minn; Árni Kristjánsson, orti ekki. En hann kunni reiðinnar ósköp af kveðskap og kenndi mér. Hann hélt þessu stöðugt að mér.“ Árni Kristjánsson dó 1966 og til- einkaði Kristján honum sína fyrstu bók; „Fjöllin sál og ásýnd eiga“ sem kom út 1994 með ljóðum og smá- sögu. Nýju bókina; „Mér finnst gott að hafa verið til“ tileinkar hann móður sinni, Elínu Kristjánsdóttur, sem lézt fyrir nokkrum árum. „Ég var ekkert að halda þessu saman fyrr en á efri árum, þegar al- varan hljóp í kveðskapinn. Ég er seinþroska á þessu sviði! Síðustu árin hefur það verið mitt líf að setja eitthvað saman og það er mér gleðiefni, að það skuli vera dæmt alandi og ferjandi. Fyrir ellefu árum greindist ég með Parkinsonsveiki og var sendur suður til að fá staðfestingu. Hana fékk ég. Ég færði lækninum eintak af bókinni minni og hann sagði hana skemmtilegustu aukaverkanir af lyfjum, sem hann vissi um!“ „Ég hef gert mikið af því að yrkja fyrir aðra, afmælis- og erfiljóð og svo hef ég líka ort fyrir sjálfan mig! Ég er nú gamaldags höfundur, fastheldinn á formið og finnst ljóð eiga að lúta föstum reglum. Ég gæti trúað að ég eigi rösk þús- und ljóð í tölvunni minni. Sumt kemur strax vel út, en ef mér líkar ekki útkoman, þá geymi ég hana eitthvað, og reyni svo að lappa upp á hana síðar meir. Eitthvað lifir þá atgöngu af, en hinu hendi ég. Ég reyni að vera vandlátur á það sem ég læt frá mér fara.“ „Það gleður mig stórum að ein- hverjir vilja líta á ljóð. Mér finnst ljóðið eiga erfitt uppdráttar nú um stundir. Það er allt öðru vísi um að litast, en þegar Sigurður Breiðfjöð flakkaði um Skagafjörð og var tekið sem poppstjörnu. En sem betur fer á vísan vini ennþá. Skjáir lýsa, lúðrar gjalla, í leiki fýsir sífellt menn. Bylgjur rísa, bylgjur falla, en blessuð vísan lifir enn. Það er mikið ort hérna í Skaga- firðinum og margir eru býsna góðir. Sæludagar ganga í garð grænka hagar jarðar. Meitlast bragur, myndar arð menning Skagafjarðar. „Nafnið á bókinni? Það er nú sótt í Útfararvers, sem ég orti fyrir nokkr- um árum. Ég var þá að fara í stóra hjartaaðgerð og fannst eitthvað tví- sýnt um framhaldið. En aðgerðin lukkaðist vel svo ég taldi meinlaust að sækja bókarnafnið til ljóðsins. Ég fann bara ekkert betra nafn. En það er alls enginn bilbugur á mér núna. Og ég er ekki hættur að yrkja. Ég reyni að hanga í því eitt- hvað enn.“ Morgunblaðið/Björn Kristján Árnason frá Skálá: Ég er nú gamaldags höfundur, fastheldinn á formið og finnst ljóð eiga að lúta föstum reglum. Blessuð vísan lifir enn MARGIR, sem komnir eru á miðj- an aldur, minnast með glöðum huga Fjölfræðibókarinnar, sem Freysteinn Gunnarsson þýddi á sínum tíma. Þar var margt nýstárlegt að finna um undur og furður náttúrunnar, merkar uppgötvanir og uppfinningar. Efnið var sett fram á auðskilinn hátt og svo var bókin prýdd glæsilegum litmynd- um, sem var ekki algengt í þá tíð. Slíkar bækur eiga nú eflaust undir högg að sækja, því að miðlun alls fróð- leiks hefur tekið slíkum breytingum, að með ólíkindum er. Nú eru komin myndbönd, margmiðlunardiskar og alls kyns tölvuleikir, sem fanga hug barna og unglinga. Engu að síður er staða bókarinnar sterk, eins og margoft hefur sýnt sig, þegar vel er að verki staðið. Gott dæmi hér um er ítalska bókaforlagið Dami Editore, sem er löngu þekkt fyrir að sérhæfa sig á sviði afar vand- aðra barna- og unglingabóka. Flestar bækur þess hafa verið þýddar á fjöl- mörg tungumál og njóta mikilla vin- sælda. Meðal annars gefur það út flokk bóka, sem er kallaður Barna- og unglingabækurnar frá Newton og er þar að sjálfsögðu skírskotað til enska eðlisfræðingsins Sir Isaac Newtons (1642–1727), enda fjallar hver bók um afmarkað fræðasvið nútímans á glæsilegan hátt í máli og myndum. Skjaldborg hefur nú gefið út sex bækur í þessum flokki og verður vart öðru trúað en þær komi til með að njóta mikilla vinsælda, líkt og Fjöl- fræðibókin fyrrum. Heiti bókanna gefur augljóslega til kynna um hvað er fjallað í hverri bók, en þær eru: Miklihvellur og svo kom lífið, Langt út í geim, Heimur vélanna, Hin mennska vél, Fornmenning og fræg- ar þjóðir og Frá risaeðlum til manna. Sammerkt öllum þessum bókum er, að þær eru einstaklega vel gerðar og vandaðar í alla staði. Sérstaka eft- irtekt vekur, hve efnismiklar þær eru, þó að hver bók sé aðeins 52 síður. Textinn er mjög skýr og ekki skrif- aður á neinu barnamáli. Myndaval er einstakt og augljóst að mikil rækt er lögð við alla gerð bókanna. Það er meiri vandi en margur hyggur að skrifa um og endursegja flókin vísindi og fræði, svo að gagni komi ungum og áhugasömum lesend- um. Sá sem við það fæst verður að búa yfir mikilli þekkingu á efninu. Hættan er ávallt sú, að mikil einföld- un leiði annaðhvort til misskilnings eða efnistök verði of losaraleg. Þá er ekki minna um vert að þýðing bók- anna sé gerð af alúð. Skemmst er frá því að segja, að hér hefur svo vel tekizt til, að fágætt má telja í bókum, sem eru ætlaðar börn- um og unglingum. Að þýðingu bók- anna stóðu þrír vanir menn, sem bezt sést á því, að málfar er vandað; Jón Daníelsson þýddi þrjár bækur, Björn Jónsson tvær og Atli Magnússon eina. Umsjón með útgáfunni hafði Örnólfur Thorlacius. Svo fróðlegar eru bækur þessar, að margir fullorðn- ir geta haft af þeim hið mesta gagn og ánægju, ekki síður en yngri kynslóð- in. Heillandi vísindi BÆKUR Náttúrufræðirit handa börnumog unglingum a) Miklihvellur og svo kom lífið, b) Langt út í geim, c) Heimur vélanna, d) Hin mennska vél, e) Fornmenning og frægar þjóðir og f) Frá risaeðlum til manna. 52 bls. hver bók. Útgefandi er Skjaldborg ehf. 2001. BARNA- OG UNGLINGABÆKUR FRÁ NEWTON Ágúst H. Bjarnason

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.