Réttur - 01.01.1960, Blaðsíða 8
SVERRIR KRISTJÁNSSON sagnfræðingur:
Avarp til 12. þings
Sósíalistaflokksins
Oft verður mér hugsað til minna pólitísku duggarabandsára í
gömlu Spörtu þegar flokkurinn — því Sparta var flokkur okkar
þá — komst fyrir í meðalstórri setustofu. Ef til væru enn í fórum
einhvers manns fundarboð Spörtu frá þessum árum, þá mundi
hann reka sig á eitt dagskráratriði sem sjaldan eða aldrei vantaði
á fundarboðið. Það hét: sambandið við verkalýðinn. Um þetta
ræddum við á nálega hverjum fundi: hvernig við, þessar fáu
hræður róttækra verkamanna og menntamanna, er vorum full-
trúar marxismans í landinu bæði í eigin ímyndun og raunveru-
leikanum, gætum náð sambandi við verkalýðinn, hið vinnandi
fólk. Við vissum það af brjóstviti okkar, að án jarðsambands við
hið vinnandi fólk yrðum við ekki annað en höfðafá setustofu-
klíka, og það var pólitískur draumur okkar að komast úr stofunni
í salinn.
Hvort sem flokkur okkar er stór eða smár þá hlýtur samband
okkar við verkalýðinn, við launþegana í landinu, að vera höfuð-
viðfangsefni, sem aldrei má gleymast, því að í þessu viðfangsefni
er tilvera flokksins falin. Vandamálið er jafn brennandi hvort sem
flokkurinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þótt þetta vandamál
sé ekki alltaf skrifað á fundarboð flokksins, þá megum við ekki
gleyma því, að það er alltaf nýtt á dagskrá okkar, hvernig sem
viðrar og við verðum oft að leysa það að nýjum hætti. I dag og
á næstu árum guðar það á glugga okkar með æ meiri áleitni, því
aðstæðurnar, sem við nú förum að búa við skylda flokkinn til að
vera brjóstvörn verkalýðsins, og ekki aðeins verkalýðsins í þrengri