Morgunblaðið - 20.01.2006, Blaðsíða 56
56 FÖSTUDAGUR 20. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
skemmtilegur. Hann hafði áhuga á
nemendum og óþrjótandi áhuga á
stærðfræði sem honum tókst svo oft
að smita okkur af. Ég þurfti því ekki
að hugsa mig tvisvar um þegar hann
bauðst til að leiðbeina mér við loka-
verkefni mitt við HÍ. Samstarfið
gekk einstaklega vel og stuttu síðar
héldum við á árlegan fund vísinda-
nefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins í
Adelaide í Ástralíu til að kynna nið-
urstöður verkefnisins. Við millilent-
um í Singapore og er dagurinn sem
við eyddum þar mér mjög minnis-
stæður. Kjartan hafði nefnilega fleiri
áhugamál en stærðfræðina og var
fuglaskoðun eitt af þeim. Ég lét því
til leiðast að þvælast með honum um
fenjaskóga Singapore í leit að fágæt-
um fuglum og átti fullt í fangi með að
halda í við hann þegar hann rauk af
stað við tíst eða vængjaþyt.
Einskær áhugi og jákvæðni í sam-
starfi einkenndu Kjartan í þeim
verkefnum sem við unnum saman
eftir þetta. Við sóttum nokkrar ráð-
stefnur til að kynna niðurstöður
rannsókna og skoðuðum fugla í fjór-
um heimsálfum. Kjartan var
skemmtilegur ferðafélagi enda var
hann fróður um svo margt og hafði
einstaka frásagnarhæfileika.
Síðasta ráðstefnan sem við sóttum
var á Ítalíu sumarið 2004. Ég á góðar
minningar þaðan um Kjartan og
Mæju konu hans. Á hverju kvöldi
kenndu þau mér að meta ítalska
matar- og vínmenningu og við spjöll-
uðum um lífið og tilveruna, heims-
málin og fjölskyldur okkar. Kjartan
sýndi aðdáunarverðan styrk og
æðruleysi í veikindum sínum, það
var stutt í húmorinn og lífsgleðin
leyndi sér ekki þessa daga okkar á
Ítalíu.
Ég verð Kjartani ævinlega þakk-
lát fyrir þá leiðsögn og hvatningu
sem hann hefur veitt mér bæði í
námi og starfi og mun varðveita
minninguna um einstakan sam-
starfsfélaga og kæran vin. Ég votta
Mæju og Ernu mína dýpstu samúð.
Eva Hlín Dereksdóttir.
Kjartan Magnússon var í mínum
augum holdtekja karlmennskunnar,
allt frá því ég man eftir honum fyrst í
Hálogalandsbragganum. Okkur rak
aftur saman í Menntaskólanum
haustið 1968. Þar náði friðsemdar-
maðurinn Kjartan fljótlega þeim
status að öflugustu ryskingamenn
skólans sneiddu hjá honum svo eftir
var tekið. Um líkt leyti heyrði ég frá
kunningjum að atgervið væri víðar
en í vöðvunum og ekki síst væri mað-
urinn eitilharður stærðfræðingur.
Kjartan sýndi fleiri þroskamerki.
Hann fór á fast með fyrstu mönnum,
sem var ekki síður aðdáunar- og öf-
undsvert á þeim árum, og hann fór á
fast með Mæju sinni fyrir lífstíð eins
og vinir hans, ernirnir, gera. Eftir
það var hann tví-einn. Tryggðin er
göfug, en hún leggur mikið undir ef
áföll skerða.
Við kynntumst í alvöru eftir stúd-
entspróf að við unnum nokkrir fé-
lagar við að leggja rafmagnslínu
austur fyrir fjall. Að vísu varð minna
úr þeim kynnum en til stóð, því Bret-
arnir, sem stýrðu verkinu, voru fljót-
ir að grípa Kjartan í erfiðustu við-
fangsefnin. Þetta sumar tókst mér
þó að hengja mig utan í strákakjarna
úr bekknum hans. Um haustið fóru
Kjartan og Mæja út til námsdvalar,
við hinir hver af öðrum, og við tókum
ekki upp þráðinn fyrr en tíu árum
seinna. Þá varð smám saman til hóp-
ur sem síðan hittist vikulega eftir því
sem gefur, án reglna og með því for-
orði að menn geti dottið út í viku eða
ár eða þrjú og dottið inn aftur án at-
hugasemda. Þar hefur verið skrafað
margt og talað hátt og stundum rifist
af fullri hörku. Þá hefur Kjartan iðu-
lega hrokkið inn í gamla rullu og
sussað á ryskingamenn. Nú reynir á
hvort einhverjar hollvættir halda
uppi aga.
Í þessum hópi kynntist ég Kjart-
ani í alvöru, stærðfræðingi, víðlesn-
um bókmenntamanni, Shakespeare-
fíkli, mynd- og tónlistarunnanda, en
þó eftirminnilegast sem ótrúlegum
nautnamanni á náttúruna. Á árviss-
um ferðum á Snæfellsnes auðnaðist
mér að elta hann nokkrum sinnum í
arnargláp og vaðfuglavakt. Jafnvel
forhertasti náttúrudurtur lítur til-
veruna öðrum augum á eftir. Ekki
var heldur afslagur að hitta hann á
tónleikum eða fylgja honum í leikhús
og heyra um muninn á Ríkharði
þriðja og nafna hans frá Vilníus. Það
stóð alltaf til að tína saman Shake-
speare á fáeinum diskum og fá
Kjartan til að ausa úr brunnum
þekkingar sinnar. Nú er of seint, en
allt hitt er þakkað.
Krabbinn er andstyggðargestur,
ótótlegastur þegar hann pjakkar ár-
um saman og gefur þó á milli undir
fótinn með að allt verði í lagi. Ein-
ungis sönn hraustmenni geta búið
við hann án þess að missa dampinn.
Það gat Kjartan. Hann las og vann
og flakkaði og naut og vann eins
lengi og kostur var. Hann hvarf
óbugaður frá góðu lífi, eins og hann
sagði sjálfur, góðri fjölskyldu, ósk-
astarfi og eltingaleik við fuglana út
um álfur og trissur. Slíkt er langlífi,
„lífsnautnin frjóa, alefling andans og
iðjan þörf“. Það er þó ekki mikil
huggun fyrir ástvini sem hefðu getað
haft hann miklu lengur.
Það er engin leið að svipta af þeirri
sorg sem nú er búin þeim Mæju,
Ernu, Georg, Sofiu, Helgu, Magnúsi
og systkinum Kjartans og öllum
þeim sem missa bæði ástvin og fé-
laga. Við Júlía biðjum þess að sár
þeirra grói eins vel og orðið getur og
að minningarnar veiti þeim blessun
og fró. Vini okkar þökkum við
ógleymanlega samferð og alla slóð-
ana sem hann sýndi okkur undir
loftsins þök í átt að betra lífi.
Markús Möller.
Þau verða heldur fátækleg orðin
sem sett eru á blað við þessar að-
stæður. Er þó tilefnið ærið. Góður
vinur er genginn langt um aldur
fram, öllum harmdauði.
Liðin eru rúm 33 ár síðan leiðir
okkar lágu fyrst saman, þá báðir við
nám í Skotlandi. Fáeinum mánuðum
síðar giftust þau Kjartan og konan
sem staðið hefur þétt við hlið hans
alla tíð síðan. María kom með honum
til Skotlands og á heimili þeirra rétt
utan við St. Andrews áttum við pip-
arsveinarnir frá Dundee marga góða
stund. Þaðan var gjarnan farið í
stuttar ferðir í fuglaskoðun, ekki síst
í hálfrökkri og rökkri í leit að uglum í
skóginum. Augu og eyru galopin í
von um að sjá eða heyra þessa hlé-
drægu músaræningja í myrkrinu.
Við fórum líka í lengri ferðir, upp í
Hálöndin, í leit að örnum og vákum,
otrum og hjörtum, oft með góðum
árangri.
Eftir nám í Skotlandi lágu leiðir
okkar saman á ný þar sem við urðum
nágrannar í Englandi við framhalds-
nám, aðeins nokkrir tugir kílómetra
á milli. Samband okkar hjónanna við
þau Maríu og Kjartan hefur haldist
alla tíð síðan.
Fuglaskoðun var ávallt helsta
áhugamál Kjartans. Óhætt er að full-
yrða að eitt alskemmtilegasta ferða-
lag sem við Ásta höfum farið í sé
ferðin með Maríu og Kjartani til
Pýreneafjalla vorið 1977. Erna dóttir
þeirra var reyndar með í för, enn í
móðurkviði. Þetta var tjaldferðalag
og við gengum mikið, sjónaukar sí-
fellt á lofti. Þrettán tegundir rán-
fugla komust á skrá, fjöldi fugla-
mynda tekinn þótt stundum væri
erfitt að sannfæra aðra um að depill-
inn hægra megin við miðju væri í
rauninni lambagammur eða snák-
erna eða hvað þeir hétu þessir fugl-
ar. Alltaf var ætlunin að fara aðra
ferð í þessum anda en aldrei varð af
því. Því miður. Við áttum þó margar
góðar stundir saman. Bara ekki
nógu margar.
Kjartan var gull af manni, hreinn
og beinn en dulur um eigin tilfinn-
ingar. Góðs vinar er sárar saknað en
orð fá lýst. Við Ásta vottum Maríu og
Ernu og öllum öðrum aðstandendum
hans okkar dýpstu samúð á þessum
erfiðu tímum.
Páll Hersteinsson.
Við Kjartan vorum lengst af sam-
bekkingar í Menntaskólanum. Fyrst
í dæmigerðum strákabekk sem
skiptist í íþróttamenn og aðra.
Kjartan var þá þegar með stæltustu
mönnum, lék handbolta og laumaði
sér inn í Glaumbæ um helgar. Við
áttum fátt sameiginlegt þá, en það
breyttist. Við lentum saman í blönd-
uðum fimmta og sjötta bekk og fé-
lagslífið tók á sig skemmtilegan blæ.
Nokkur hópur í bekknum náði
einkar vel saman og gerir enn.
Kjartan var í þeim hópi og fundum
við fljótt að hann var fluggáfaður,
manna best lesinn og vitnaði ótrú-
lega áreynslulaust í Shakespeare.
Hann var líka langbestur í stærð-
fræði í bekknum, skildi hana á með-
an við hin kunnum að leysa dæmi.
Frammistaða Kjartans á stærð-
fræðiprófum var okkur mælikvarði á
hversu þung þau væru. En svo átti
hann það einnig til að lygna aftur
augunum á aftasta bekk ef honum
leiddist eitthvert fagið. Mennta-
skólaárin liðu hratt, hópurinn dreifð-
ist og Kjartan hélt utan til doktors-
náms í hagnýttri stærðfræði. Hann
hafði þá auðvitað krækt sér í falleg-
ustu stúlkuna í bænum, Maju, sem
syrgir hann nú. Þótt vinahópurinn
byggi í mörgum löndum hittumst við
reglulega, ekki síst fyrir atbeina frú
Ingu, móður eins í hópnum, sem var
óþreytandi að bjóða okkur heim um
jól og í sumarleyfum. Þegar eg kom
loks heim eftir langa útivist hitti eg
Kjartan fyrir á Raunvísindastofnun.
Við tókum fljótlega upp þann sið að
hittast á Tjörninni í hádeginu á
föstudögum og ræða málin og höfum
nú hist vel á annan áratug. Fleiri
skólabræður bættust í hópinn, jafn-
vel utanbekkjarmenn, en allir vorum
við samstúdentar 1972. Kjartan hélt
í samræðum okkar uppi merkjum
rökvísi og skynsemi, aðrir voru há-
fleygari eins og gengur. Þessir fund-
ir verða aldrei samir. Kjartan G.
Magnússon var í hópi virtustu sér-
fræðinga landsins í sínu fagi og stóðu
rannsóknir hans með miklum blóma.
Það var honum líkt að taka þátt í
stefnumótun Háskóla Íslands nokkr-
um dögum fyrir andlátið. Eg votta
Maju og fjölskyldunni innilega sam-
úð mína og kveð Kjartan vin minn
með miklum söknuði.
Hafliði Pétur Gíslason.
Kjartan G. Magnússon stærð-
fræðiprófessor var óvenju vel gefinn
maður. Hann var manna fróðastur
um klassíska tónlist og fagrar bók-
menntir. Hann virtist kunna öll leik-
rit Shakespeares utan að og hafa les-
ið flest önnur meistaraverk
heimsbókmenntanna margsinnis,
sérstaklega rússneska höfunda 19.
aldar. Það var þó fjarri Kjartani að
sýnast. Hann var yfirlætislaus í tali
og framkomu og reyndi aldrei að
auglýsa hina djúpu þekkingu sína.
Hann var góður kennari, sinnti öt-
ullega rannsóknum í stærðfræði og
birti fjölda ritgerða í virtum vísinda-
tímaritum.
Við Kjartan kynntumst í fimmta
bekk Menntaskólans í Reykjavík
haustið 1970. Við tókum þá og næsta
vetur upp á því að fara nokkrir sam-
an að loknum eðlisfræðitilraunum á
laugardagsmorgnum niður í bæ og
fá okkur hádegisverð. Við lásum líka
saman ýmis heimspekirit, aðallega
eftir þá Popper og Wittgenstein.
Sambandið slitnaði ekki, þótt Kjart-
an héldi til náms í Skotlandi að loknu
stúdentsprófi. Þegar við vorum báðir
orðnir hér háskólakennarar, hófum
við að hittast aftur reglulega á föstu-
dögum með nokkrum bekkjarbræðr-
um á veitingahúsinu Við tjörnina. Ég
heimsótti líka Kjartan oft í rann-
sóknarleyfum hans erlendis.
Kjartan var maður mjög vel gerð-
ur. Ég heyrði hann aldrei halla orði á
nokkurn mann. Hann var reiðubúinn
að skoða hvert mál frá mörgum hlið-
um. Hann var fremur ómannblend-
inn, en hafði gaman af því að lyfta
glasi í góðra vina hópi. Hann var ekki
feiminn, heldur óáleitinn. Kjartan
hafði lítinn áhuga á veraldlegum
gæðum, þótt hann vanrækti síður en
svo borgaralegar skyldur. Hann var
höfðingi í lund og veitull vel. Kona
hans, María Hafsteinsdóttir, er af-
bragðshúsmóðir og var ætíð ánægju-
legt að koma á heimili þeirra. Kjart-
an var fríður sýnum, hávaxinn og
svaraði sér vel, íþróttamaður á yngri
árum, ljós yfirlitum og snareygur,
beinn í baki og djarfmannlegur, en
stilltur í fasi. Hann var fámáll um
erfið veikindi sín síðustu árin, en
honum þótti vænt um, að í þeim
miðjum eignaðist hann dótturdóttur.
Það var líkn með þraut.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Margt leitar á hugann og margar
fallegar minningar vakna. Það var
yndislegt að umgangast Kjartan.
Hann var sannur menntamaður í
bestu merkingu þess orðs, óþrjót-
andi náma fróðleiks um alla mögu-
lega hluti, og ekki einungis fróður,
heldur vitur, skarpgreindur, hógvær
og skemmtilegur. Fyrst og fremst
var Kjartan Magnússon drengskap-
armaður.
Kjartan var mikill náttúruunnandi
og ást hans á náttúrunni var smit-
andi. Við sátum eitt sinn tveir saman
í bátskænu milli skerja á spegilslétt-
um og sólbjörtum Breiðafirði innan
um lunda og múkka, dorguðum eftir
þorski og nutum sköpunarverksins.
Maður skynjar guðdóminn á svona
stað. Við gengum saman um eyjar og
nes að skoða náttúru lands og lofts
og Kjartan benti á alla þá aðskilj-
anlegu fugla, sem glámskyggnum
samferðamanni annars yfirsást.
Hann hafði þolinmæði veiðimannsins
og gat beðið klukkutímum saman til
að koma auga á þórshanahjón, með
sjónaukann einan að vopni.
Kjartan var gæfumaður jafnt í
starfi sem einkalífi. Mæja var honum
ómetanlegur styrkur í veikindunum
og litla dótturdóttirin sem ljósgeisli.
Það var mikil blessun að Kjartan
náði að kynnast afastelpunni, Sofiu
Leu, þótt kynnin væru alltof stutt.
Sá mikli styrkur sem býr í fjölskyldu
Kjartans, foreldrum, ættingjum og
tengdafólki var aldrei skýrari en
þegar heilsan brást.
Það er stórt skarð höggvið í vina-
hópinn. Kjartan, þessi holdgerving-
ur hreysti og heilbrigðs lífernis, er
fyrstur til að falla. Norn eru grimm.
Hvar eru sanngirni og réttlæti?
Skaði okkar er mikill og verður aldr-
ei bættur. Minningin um góðan vin
lifir.
Við Bryndís og fjölskylda okkar
færum Mæju, Ernu, Georg og Sofiu
Leu, foreldrum Kjartans, ættingjum
og tengdafólki okkar innilegustu
samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur.
Einar Stefánsson.
Fallinn er frá kær vinur, langt um
aldur fram, eftir harða baráttu við
illvígan sjúkdóm sem svo oft hefur
betur hversu hetjulega sem barist
er.
Fréttin um lát Kjartans Magnús-
sonar barst okkur hjónum þar sem
við erum stödd erlendis og getum því
ekki kvatt nema með nokkrum línum
og góðum hug til ykkar, Mæja mín,
Erna, Georg og litli sólargeislinn
Sofia. Það er sama hverjar aðstæður
eru þá kemur andlátsfregn góðs vin-
ar alltaf sem reiðarslag. Í gegnum
hugann fljúga yndislegar minningar
um samverustundir sem ylja um
hjartarætur nú þegar komið er að
kveðjustund. Mér finnst eins og
gerst hafi í gær þegar Mæja vinkona
kynnti fyrir mér þennan myndarlega
og prúða pilt sem unnið hafði hjarta
hennar. Ég fann strax hvern mann
hann hafði að geyma og uppfrá því
varð einlæg vinátta okkar í milli. Það
var alltaf gaman að spjalla og ekki
var komið að tómum kofunum, sama
hvert umræðuefnið var. Kjartan
hafði yndi af fagurbókmenntum, var
náttúruunnandi og sannur heims-
borgari, enda ferðuðust þau Mæja
víða um fjarlægar slóðir auk þess að
dvelja langdvölum erlendis við nám
og störf. Mér verður oft hugsað til
heimsóknar til þeirra á námsárunum
í St. Andrews. Þá var gaman að vera
ungur. Þar áttum við ógleymanlegar
stundir þar sem gestrisni og vin-
skapur ríkti sem átti eftir að haldast.
Við fjölskyldan vottum Mæju,
Ernu, Georg, Sofiu, foreldrum og
systkinum Kjartans innilega samúð
okkar. Megi góður guð styrkja ykk-
ur á erfiðum tímum. Kjartani þökk-
um við vegferðina.
Gréta.
Við fráfall Kjartans Magnússonar
koma í hugann góðar minningar um
kæran bekkjarbróður og vináttu
sem staðið hefur í meira en 30 ár.
Ljúfar minningar eru um margs
konar gleðskap í hópi náinna skóla-
systkina og fjölskyldna þeirra,
reglulega hádegisverði þar sem vin-
áttan var styrkt, árlegt vinamót að
Valshömrum, leikhúsferðir, stór-
kostlegt ferðalag nýlega til Frakk-
lands og margt fleira.
Við Sigga sendum Maju, Ernu og
Georg, foreldrum, systkinum og öll-
um öðrum ástvinum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur. Við munum
sakna hans.
Bjarni A. Agnarsson.
KJARTAN G.
MAGNÚSSON
Okkur var öllum af-
skaplega brugðið þeg-
ar við sáum tilkynningu um andlát
Fríðu. Hvernig mátti það vera – hún
svona ung? Við höfum ekki enn feng-
ið skilning á því hvers vegna hún, í
blóma lífsins, var með engum fyrir-
vara hrifsuð frá ættingjum og vinum.
Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Að
þessu sinni verðum við af öllum okk-
ar mætti að trúa því að Fríðu hafi
beðið mikilvægara hlutverk hinum
megin fremur en hér hjá ástvinum
sínum.
Fríða var góður samstarfsfélagi
en við unnum saman um margra ára
skeið á auglýsingastofunni Yddu eða
allt þar til hún flutti til Afríku. Hún
var ævinlega ljúf í fasi, hjálpsöm og
með þægilega nærveru. Það er gott
að vinna með fólki sem hefur þá eig-
inleika.
Það fór aldrei framhjá neinum á
Yddu hversu miklu máli dætur henn-
ar skiptu hana og hve samband
BJARNFRÍÐUR H.
GUÐJÓNSDÓTTIR
✝ BjarnfríðurHjördís Guð-
jónsdóttir fæddist á
Ísafirði 5. mars
1957. Hún lést á
Landspítala – há-
skólasjúkrahúsi í
Fossvogi á aðfanga-
dag, 24. desember
síðastliðinn og var
útför hennar gerð
frá Árbæjarkirkju
5. janúar.
þeirra var náið. Henni
var mjög umhugað um
þær og að hlutirnir
gengju vel fyrir sig
þrátt fyrir að hún væri
fjarri heimilinu allan
daginn. Fríða hefði án
nokkurs vafa viljað
fylgja dætrum sínum
og barnabörnum
miklu lengur eftir en
raunin því miður varð.
Hún mun án efa vaka
vandlega yfir þeim öll-
um.
Við Yddukonur
minnumst Fríðu með mikilli hlýju og
sendum okkar innilegustu samúðar-
kveðjur til dætra hennar Esterar,
Eyrúnar og Elvu, fjölskyldna þeirra
og annarra ástvina. Megi góður Guð
veita ykkur öllum styrk á þessum
erfiða tíma. Guð blessi minningu
Fríðu.
Fyrrum samstarfskonur
á Yddu.
Mig langar í örfáum orðum að
minnast Fríðu. Við kynntumst á
hjúkrunarheimilinu Eir, þar sem við
unnum saman. Hjá okkur myndaðist
fljótt góður vinskapur. Báðar hætt-
um við störfum þar, en vináttan óx
mikið síðustu mánuðina og vorum
við í stöðugu sambandi.
Þín verður sárt saknað, elsku vin-
kona. Góður Guð geymi þig.
Þuríður Georgsdóttir.