Andvari - 01.05.1967, Side 6
4
JÓHANN BRIEM
ANDVARl
Þegar dálítið fer að birta, sjást hjarðir á beit í fjallahlíðum, og þolinmóðir
hjarðmenn halla sér fram á stafi sína, sem eru lengri en mennirnir sjálfir. Og
nokkur kolsvört hirðingjatjöld skilja sig út úr nóttinni. Þau eru rnikil um sig
og hvíla á mörgum tjaldsúlum, en dúkurinn er ofinn úr geitarhárum. Þótt rnest
beri á sauðfé, sjást einnig hjarðir af geitum, og stundum er hvort tveggja saman.
Geiturnar eru allar svartar og gljáandi, en kindurnar gulgráar með stór lafandi
eyru og langa og digra rófu. Þær líkjast meira hundi en íslenzkri kind. Þegar
hjarðmaðurinn er á ferð með kindahópinn, er það ýmist, að hann rekur kind-
urnar á undan sér eða hann gengur sjálfur á undan og kindumar elta, en oftast
gengur hann í miðjum rekstrinum, og eru kindurnar bæði á undan honum og
eftir og til beggja hliða.
Nú þarf ekki að óttast ræningja á þessum slóðum, en alla tíð, meðan Tyrkir
réðu hér ríkjum, fram á styrjaldarárin fyrri, var leiðin ótrygg. Ræningjarnir
höfðu sinn umboðsmann í Jerúsalem, og varð hver, sem um veginn fór, að gjalda
honum háan skatt, en fékk í staðinn bevís eða reisupassa og fékk þá að fara í
friði. En sá, sem ekki sinnti þessu, var glötuninni ofurseldur. Tignir menn og
þjóðhöfðingjar urðu að lúta sömu lögum og aðrir. Þegar Vilhjálmur 2. Þýzka-
landskeisari var hér á ferð 1898, gerðist hann svo rausnarlegur, að hann veitti
foringja ræningjanna þýzka orðu.
Leiðin lækkar um 1200 metra frá Jerúsalem niður að Jórdan, en vegurinn
er hvergi brattur. Þetta er nýr vegur með jöfnum halla og furðubeinn, þótt
landið sé óslétt. Víða hafa verið sorfin skörð í kletta. En meðfram þessari nýju
þjóðbraut sést gamli vegurinn í ótal beygjum og krókum.
í hálfrökkri förum við austur yfir Jórdan. Móabsfjöllin eru eins og dökkur
veggur framundan, sem hækkar óðum, en á tindi Nebófjalls er ennþá morgun-
þoka. Nú eru ekki landamæri við Jórdan, samt standa vopnaðir hermenn á
brúnni, en þeir tefja okkur ekki. Þegar komið er yfir ána, taka við Móabsvellir.
Svo kvað Hallgrímur:
Þá Israels lýður einkar fríður af Egyptó
út réð ganga, eyðimörk langa yfir dró,
á Móabs völlum þreyttur þó
þá um siðir landtjöldum sló.
Frá Jórdan er skammt austur að dalshlíðinni, og liggur vegurinn þá upp í
brekkurnar. Hér er miklu brattara en niður í dalinn að vestan og leiðin styttri
upp á brún. Vegurinn hlykkjóttur og seinfarinn, og eru smáþorp hér og þar, en
niðri í dalnuin er hrjóstrugt land og byggð strjál.