Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 17
ANDVARI
ÞORBJÖRN SIGURGETRSSON
15
hafði verið mín aðalgrein. Hinsvegar þótti mér leitt að bregðast því trausti sem
mér hafði verið sýnt með styrkveitingunni.
Það varð úr að ég afsalaði mér styrknum og fluttist frá Rockefellerstofnun-
inni í Princeton að Princetonháskóla.4
Tími Þorbjörns við rannsóknir í Princeton var eina skeið ævi hans,
sem hann gat gefið sig óskiptan að rannsóknum við góð skilyrði.
Arangurinn var glæsilegur. Við val á verkefni sýndi hann í senn mikinn
metnað og fundvísi. Hann snéri sér að geimgeislarannsóknum, enda
þótt enginn ynni þá á þessu sviði í Princeton, og tók að kanna eðli
svokallaðra mesóna í geimgeislum. Japanskur eðlisfræðingur,
Yukawa, hafði 1935 reynt að skýra þá krafta sem halda saman kjörn-
um atómanna með því að gera ráð fyrir tilvist nýrrar tegundar af
ögnum, sem hann kallaði mesónur. í prófritgerð Þorbjörns var
mesónutilgátunni beitt, svo hann var því vel inni í þessum fræðum. Ögn
sem í fyrstu virtist koma heim við kenninguna um mesónur fannst í
geimgeislum árið 1937, en nú voru komnar fram nokkrar efasemdir
um að geimögnin félli nógu vel að lýsingu Yukawas. Þorbjörn snéri sér
að því að kanna betur eiginleika hennar. Hann vildi mæla hve langur
tími liði frá því að mesóna stöðvast í ýmsum léttum efnum þar til hún
ummyndast í rafeind. Nú kom reynsla hans frá Kaupmannahöfn sér
vel, en hér þurfti að mæla enn skemmri tíma en við ummyndun RaC".
Að fyrirsögn Þorbjörns var smíðað tæki sem gat mælt tíma niður í
milljónasta hluta úr sekúndu, sem var á mörkum þess sem rafeinda-
tæknin réð við á þessum árum. Þorbjörn lauk rannsóknarverkefninu
vorið 1947.
Hann lýsti niðurstöðum sínum í tveimur greinum sem vöktu mikla
athygli. Með mælingum hans fékkst nú fyrst skýr mynd af eiginleikum
geimagnarinnar og kom þá ótvírætt í ljós að þeir samræmdust ekki
kenningu Yukawas. Hin rétta mesóna fannst svo í geimgeislum
skömmu síðar. Þorbjörn skrifaði nokkrum árum síðar grein í Tímarit
Verkfrœðingafélags íslands5 um geimgeislarannsóknir. Það lýsir vel
hógværð hans að einungis kunnugir geta vitað hvernig mælingar hans
komu þar við sögu.
Varla hefði verið erfitt fyrir Þorbjörn að fá aðstöðu og fé til að halda
áfram vísindarannsóknum í Bandaríkjunum eftir svo ágætan árangur,
en ekkert slíkt virðist hafa verið í huga hans, hann hélt án hiks heim í
óvissuna. ,,Áform mín voru þó öll á einn veg, að flytjast heim og vinna