Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 104
102
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
afstöðu sinni til annarra eininga — getur ekki hugsast að oft „gleymist“ að
gera ráð fyrir slíkri virkni þýðinga?
II
Hér verður hugað sérstaklega að stöðu þýðinga í íslenskri bókmenntasögu á
síðari hluta þessarar aldar. Upphaf þessa tímaskeiðs markast af síðari
heimsstyrjöld, en með henni verða nokkuð skörp skil í íslenskri menningar-
og efnahagssögu. Ef við leitum fyrst í þeim bókmenntasöguritum sem til eru,
verður fátt um svör við spurningunni um stöðu þýðinga á þessu tímabili.
Raunar mætti ætla að þýðingar séu á sinn hátt mjög þögull menningarkimi.6
Þessi þögn ríkir ekki aðeins í bókmenntasögunni, heldur er og almennt lítið
fjallað um störf þýðenda og kjör, um það hvers eðlis sköpun þeirra er og um
hlutverk þeirra sem menningarmiðlara. Einstaka sinnum er að vísu farið
nokkrum fjálgum orðum um „nauðsyn þýðinga“, en oftast er litið á þýðendur
sem vélmenni er sinni ákveðnu þjónustustarfi. Verði þeim á einhver mistök
sem spretta má fingri að, geri þeir „vitleysu“, þá ber að sjálfsögðu að benda á
að gallað vélmenni sé varasamt — enda telja margir gagnrýnendur það
greinilega æðstu skyldu sína í umfjöllun um þýðingar að vísa lesendum á
einstakar þýðingav///wr sem framdar eru á tilteknum blaðsíðum í verkinu.
Ef raunin er sú að þýðing sé þögult ,,neðanjarðarstarf“, sem ef til vill
kemur helst upp á yfirborðið í neikvæðum myndum, þá er bókmenntasagn-
fræðingum kannski ekki sjálfrátt í þessu efni.
En slík þögn er í æpandi mótsögn við raunverulegt yfirlit yfir útgáfu
bókmennta og sniðgengur meginþátt í sambandi bókmennta og lesenda í
samfélaginu, einkum hvað varðar hlut skáldsagna. Sé litið á skrá Ólafs F.
Hjartar um íslenska bókaútgáfu 1887-1966 (iÁrbók Landsbókasafns 1967)
kemur í ljós að flokkurinn „þýdd skáldrit“ (þar sem eru bæði prósaverk og
leikrit, en leikritin eru fá) er yfirleitt mun stærri en „frumsamin skáldrit“. Og
raunar eru „þýdd skáldrit“ hreinlega stærsti flokkurinn í gjörvallri íslenskri
bókaútgáfu á öldinni. Stærsti hluti íslenskra bókahöfunda er því hópur þeirra
manna sem eru höfundar þýðinga á erlendum skáldritum. Lítum á þá töflu
sem Heimir Pálsson setti upp í bókmenntasöguriti sínu, Straumum og
stefnum, með hjálp upplýsinga úr skrá Ólafs: