Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 200
ÞÓRARINN ÞÓRARINSSON
Sköpunarár Framsóknarflokksins
Helgi Skúli Kjartansson er ágætur sagnfræðingur og snjall rithöfundur. Ég er
í hópi þeirra, sem lesa með athygli allt, sem frá honum kemur. Þannig las ég
með eftirtekt grein um Jónas Jónsson og upphaf Framsóknarflokksins, en hún
birtist í Andvara 1987. Tilgangur greinarinnar virðist vera að draga í efa þau
ummæli Jóns Sigurðssonar í Ystafelli að stofnun Framsóknarflokksins hafi
beinlínis verið skipulögð af Jónasi og í sömu átt hnígi fleiri vitnisburðir. Það
sé nánast viðtekin söguskoðun að telja Jónas „föður Framsóknarflokksins“.
Formlega hafi hann þó ekki verið aðili að stofnun flokksins né undirbúningi
hennar, því að hann var stofnaður af þingmönnum einum. Jónas var ekki
þingmaður og hafði einkum áhrif að tjaldabaki. Það sé því ekki alls kostar
ljóst hver hlutur hans var að stofnun Framsóknarflokksins.
Þessari niðurstöðu Helga get ég ekki verið samþykkur. Það liggja fyrir svo
augljós gögn og heimildir, sem staðfesta þau ummæli Jóns í Ystafelli, að
Framsóknarflokkurinn var skipulagður af Jónasi Jónssyni og raunar varð
hann ekki aðeins höfuðsmiður hans, heldur þess nýja flokkakerfis eða þrí-
flokkakerfisins, sem þá leysti af hólmi gömlu flokkana, sem helgaðir voru
stjórnmálaþrasinu við Dani. Margir fleiri lögðu þar hönd á plóginn og við það
bættist, að þróunin í þjóðfélaginu og breytingar á atvinnuháttum mynduðu
hagstæðan jarðveg fyrir hina nýju flokka. Þetta er löng og mikil saga og ó-
neitanlega á enginn einstaklingur þar stærri þátt en Jónas Jónsson.
Forsaga Framsóknarflokksins hefst í raun alllöngu áður en hann var form-
lega stofnaður á Seyðisfirði haustið 1916. Árið 1939 gaf Samband ungra fram-
sóknarmanna út í bókarformi úrval af greinum Jónasar í Skinfaxa undir heit-
inu Vordagar og féll það í hlut minn sem formanns S.U.F. að skrifa formála.
Fékk ég Jónas til að skrifa uppkast að honum og breytti því lítillega. Margt í
uppkasti Jónasar lét ég haldast óbreytt og þar á meðal orðin: „Það má því
segja, að árin 1911-1916 séu sköpunarár Framsóknarflokksins.“ Mér finnst
rétt að birta hér orðréttan þann kafla formálans, sem þessi orð eru tekin úr. í
upphafi hans er lýst ritstjórn Jónasar en síðar segir:
„Það leið heldur ekki á löngu þangað til Jónas Jónsson hlaut þá viðurkenn-
ingu ungmennafélaganna, að þau hefðu hlotið þann leiðsögumann, er þau
hefðu þarfnast. Greinar Jónasar Jónssonar hleyptu nýju fjöri og eldmóði í