Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 196
194
SIGURJÓN GUÐJÓNSSON
ANDVARI
nokkuð á fimmta áratug. 1 hlut Valdimars fellur að yrkja heilan flokk guð-
spjallasálma, þ.e.a.s. yrkja ekki af beinni innri þörf heldur eftir pöntun
nefndarinnar. Verður ekki annað sagt en að hann sleppi sæmilega frá því
verki. Við útkomu sálmabókarinnar er það í raun og veru hann sem ber mest
lof úr býtum.
í einu bréfinu koma fram tillögur Valdimars um hvaða sálma í sálmabók
1871 hann vill strika út. Nú öld síðar eru þeir því nær allir horfnir úr íslenskri
sálmabók, og bendir það til hins næma smekks hans. Tvo sálma sem felldir
voru út vill hann óhikað halda í: „Rauð runnin undir“ eftir sr. Magnús Ein-
arsson á Tjörn og „Lífsreglur hollar haldi menn,“ þýddur sálmur.
Ein tillaga hans, sem ekki var sinnt, er sú að fella niður „Heims um ból“.
Vildi Valdimar taka upp í stað þessa sálms, sem hafði sungist inn í þjóðina,
sálm sr. Matthíasar „Blessuð jól“. Pýðingu Matthíasar á hjónavígslusálmi
Karls Geroks, „Tvær hendur mætast hér í dag,“ vildi hann taka upp en sleppa
fyrsta versi.
Helgi mun hafa farið þess á leit við Valdimar að hann læsi prófarkir að
sálmabókinni. En hann ýtir því frá sér og segir: „Ekki hefði mér þótt það of-
verk fyrir Steingrím, þó hann hefði lesið prófarkir ókeypis, úr því hann hefur
svo lítið gert annað.“ Nefndin mun hafa gert sér vonir um að framlag þjóð-
skáldsins yrði meira en raun varð á. Að vísu var hann, einn nefndarmanna,
hvorki guðfræðingur né þjónandi prestur.
Með þeim Helga og Stefáni Thorarensen hafði lengi verið góð samvinna og
vinátta. Þeir voru nágrannar og um skeið sóknarprestar í sama prófastsdæmi.
Þegar Stefán var að undirbúa sálmabókina 1871 var Helgi hollur ráðgjafi
hans og hafði fengið Stefáni fyrstu sálma sína til prentunar, er hann vann að
viðbætinum áratugi fyrr.
í einu bréfi til Helga lofar Stefán sálma Matthíasar, en bætir síðan við: „En
þó kann ég ekki vel við þá... Breytingar hans á sálmabókarsálmunum eru
ótækar... víðast ekki breytingar heldur nýir sálmastúfar, festir á báðum
endum... við kubba af gömlum sálmum.“
Stefán varð fyrstur íslenskra skálda til þess að þýða enska sálma og heldur
áfram: „Af enskum sálmum hef ég lagt marga út. Það er nefnilega einkenni-
legt við marga enska sálma: í fyrsta lagi, að þeir halda sér flestra annarra
þjóða sálmum fremur til orða ritningarinnar. í öðru lagi að þeir „eru ólíkir
þessum „reflecterandi“ sálmum, sem kalla að skynseminni fremur en hjart-
anu“. Og Stefán bætir við: „Ensku sálmarnir eru léttir og auðskildir og hrífa
hjartað með innilegri tilfinningu undir eins... Sálmar eiga ekki að vera eins og
ólseigur harðfiskur sem lengi þarf að tyggja áður en honum verður rennt
niður...“
Stefán var mjög söngvinn, manna raddfegurstur og réð mestu um lagaval
sálmabókar. Þrjú eru þau lög, sem hann er mjög óánægður með sem sálma-