Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 114
112
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
ekki óyggjandi svör á hraðbergi. Samkvæmt útlistun Even-Zohars á bók-
menntakerfinu eflast þýðingar stundum vegna þess að kreppa er í frum-
sömdum bókmenntum. Ég treysti mér satt að segja ekki til að fullyrða hvort
þetta geti átt við um níunda áratuginn í íslenskum bókmenntum. Ef leitað er
jarðbundnari skýringa, þá á íslenski þýðingarsjóðurinn vísast hlut að máli, en
hann var stofnaður fyrir nokkrum árum og styrkir útgáfu nokkurra þýðinga á
ári hverju. Raunar duga framlög hans að því er ég best veit ekki nema fyrir
hluta þýðingarlauna, en hins vegar hefur sjóðurinn greinilega ýtt við for-
leggjurum, opnað augu þeirra fyrir þessum mikilvæga hluta bókmenntalífsins
og þannig gert þýðendur síður en ella háða duttlungum markaðarins. Jafn-
framt er ég ekki frá því að virðing skáldsagnaþýðinga og skilningur á mikil-
vægi þeirra hafi almennt aukist á síðustu árum. Ef til vill skiptir máli að sumir
fremstu höfundar okkar, til dæmis Thor Vilhjálmsson og Guðbergur
Bergsson, hafa lagt fyrir sig þýðingar og jafnframt þýtt sögur sem vakið hafa
athygli (en þá má ekki gleyma því að það gilti einnig á sínum tíma um Halldór
Laxness og fleiri höfunda). Einnig kann skýring að felast í samfelldu framtaki
vissra þýðenda sem stunda þýðingar jafnvel sem aðalstarf til langframa og
þýða metnaðarfull verk. Hér má til dæmis benda á tengsl vissra höfunda og
þýðenda, ,,samvinnu“ sem lesendur eru farnir að reikna með sem hluta af
bókmenntakerfinu. Þar á ég til dæmis við þá Isaac Bashevis Singer og Hjört
Pálsson, William Heinesen og Þorgeir Þorgeirsson, Gabriel García Márquez
og Guðberg Bergsson; raunar má tala um almenn tengsl Guðbergs og bæði
spænskra og suður-ameríska bókmennta, og eins um sambandið milli Ingi-
bjargar Haraldsdóttur og rússneskra bókmennta, sbr. þýðingar hennar á
verkum eftir Dostójevskí og Mikhaíl Búlgakof.
Ef hér er um blómaskeið að ræða — en um það er varasamt að fullyrða í
hávaðanum miðjum — er vonandi að það megi standa sem lengst og ekki
verða eins endasleppt og hin öfluga þýðingaútgáfa á fimmta áratugnum.
VI
Það sem er hvað athyglisverðast við framgang bókmenntaþýðinga á síðustu
árum er hve hiklaust eru gefnar út fjölmargar þýðingar úr ensku. Því hefur
ósjaldan verið hreyft að enskukunnátta íslendinga sé orðin svo mikil og
almenn að þeir geti lesið á frummálinu þær bækur sem samdar eru á ensku (og
þar af leiðandi einnig lesið bókmenntir annarra þjóða í enskum þýðingum).
Nú hefur hinsvegar komið á daginn að það eru ekki síst skáldverk enskrar
tungu sem þýdd hafa verið af kappi á undanförnum árum. Ég reikna með að
stórt hlutfall lesenda þessara þýðinga gæti lesið verkin á frummálinu. En það