Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 130
128
EYSTEINN PORVALDSSON
ANDVARI
Hér á eftir verða meginþættirnir í Ijóðum Þorsteins ræddir í stuttu máli:
viðhorfin til náttúrunnar, þjóðfélagsmála, trúarhugmynda og tilvistar, svo og
stíleinkenni skáldsins.
Að sumu leyti er Þorsteinn eins og maður og skáld frá fyrri öld sem farið
hefur tímavillt — en með þokka og glæsibrag — gegn straumi tímans inn á
okkar efnishyggjusvið, inn í öld munaðarhyggju og sérgæsku, inn í veröld
neyslusamfélagsins sem metur lífsþægindi og eignasöfnun meira en sálarfrið,
hugarheill og fegurð. Lífsviðhorfin í ljóðum hans, einkum afstaðan til náttúr-
unnar og til ættjarðarinnar, eru af toga rómantíkurinnar á nítjándu öld, sem
ríkti raunar hjá okkur fram á þá tuttugustu. Hér eru skynjanir og hugsanir
hins ófirrta manns; náttúrubarnið er á ferli meðal okkar efnishyggjufólksins,
þessa stressaða safnaðar, sem ærist fram og aftur í leit að munaði og þægind-
um en hefur misst sjónar á þeirri hugsvölun og þeirri lífsfyllingu sem fæst í
samvistum við náttúruna. í ljóðinu Á gauktíð (62)2 stendur:
Og við líðandi
lækjar nið
sofnar kvöldskin
á seglþaki
andvaka gests,
er hjá gauki og muru
leitar hvíldar
um langan veg.
Náttúrukvæðin eru langdrýgstur hluti af skáldskap Þorsteins Valdimars-
sonar alla tíð og í þessum ljóðrænu náttúrukvæðum verður skáldskapur hans
bæði fegurstur og þróttmestur.
í kveðskap rómantísku stefnunnar var næm náttúruskynjun meginatriði.
Náttúran var ímynd æðstu hugsjónar, guðlegs máttar, og samkennd við hana
gat leitt til sæluástands sem oft er fjálglega lýst í kvæðum rómantískra skálda.
Hin rómantíska náttúruskynjun í ljóðum Þorsteins Valdimarssonar er hins-
vegar laus við alla mærð og tilfinningasemi, tjáning hennar einkennist af
íhygli, hugkvæmni í nútímalegri orðasmíð og samstillingu máls og hljóms.
I mörgum rómantískum náttúrukvæðum er skynjunin bundin átthögum og
bernskuheimþrá. í ljóðum Þorsteins Valdimarssonar bregður hvað eftir ann-
að fyrir gesti eða einmana ferðalangi, þreyttum og angurfullum nútíma-
manni, sem leitar á náðir náttúrunnar eða vitjar berskuslóða sér til hugsvöl-
unar og endurnæringar. Þetta er raunar smalinn sem vitjar uppruna síns, eða
glataði sonurinn sem snýr loks heim. En þar er enginn til að bjóða hann
velkominn nema náttúran, fólkið er dáið eða horfið burt. í kvæðinu Áning
{'11) er það lækurinn og fossinn sem fagna honum: