Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 184
182
BENEDIKT S. BENEDIKZ
ANDVARI
Því verður ekki neitað að Guðbrandur kom illa fram í þessu máli, og má
með réttu áfellast hann fyrir framhleypni sína. Eins og oftar er þó tilgangur og
tilfinningar manna fjölbreyttari en í fyrstu virðist, og þó að það afsaki Guð-
brand ekki getur sú athugun kannski skýrt framkomu hans. í einveru sinni í
Oxford hafði hann svo að segja misst allt beint samband við ísland og íslend-
inga, og ofan á óvild gagnvart Eiríki Magnússyni bættist nú þótti hans fyrir
hönd landsmanna sinna og viðbjóður hans á hinu háværa betliskrumi sam-
skotanefndarinnar, svo að lokum gat hann ekki orða bundist og gaf reiði sinni
lausan taum í einu höggi. Að hann sló vindhögg kom af því að hann reiddi
sig á vilhöll vitni og að hann spillti málstað sínum með því að hann lét þóttann
skína í orðalagi sínu og hleypti þannig lesendum upp á móti sér, og tókst því
ekki að spilla fyrir hjálparnefndinni eins og hann ætlaði sér.
VIII
Nokkrummánuðum eftir að hallærismálið hjaðnaði niður kom svo Corpus Po-
eticum Boreale út hjá Clarendon Press í Oxford. Má hiklaust telja það mesta
stórvirkið sem Guðbrandur átti forystu að og gat lokið við. Hér tók hann
saman allan hetjukveðskap fornbókmennta vorra sem teljandi var og las hann
sem listaverk, en ekki sem málfræðilegar þrautir. í formálum þeim sem hann
las fyrir og York Powell lagði svo út eru kynstur nýrra og frjórra bókmennta-
legra hugmynda, og það er leiðinlegt að enginn hefir nennt að gera þeim hæfi-
leg skil í heila öld þar til nú að frú Ursula Dronke, eftirmaður Guðbrands í
kennarastól, hefur skoðað þær í grein sem verður prentuð í aldarminningar-
safnriti því sem prentað verður í Leeds Studies in English. í þeim má sjá
hvernig samneyti við fornfræðinga í Oxford víkkaði sjóndeildarhring hans,
sérstaklegaþegar hann er að reyna að skýrakvæðin í evrópskusamhengi; enþví
miður má líka sjá þar það sem Sveinbjörn Egilsson fann að vantaði í verk-
hæfni Guðbrands - gæðingurinn gat ekki stillt sig. Hér tók hann texta kvæð-
anna traustatökum sem textaheimildirnar oftast leyfðu ekki, og óvildarmönn-
um hans hefir reynst það létt verk að sanna að hann orti alltof oft í eyðurnar
eða umhverfði kvæðinu til þess að pína út úr því skilning sem ekki stenst raun-
ina þegar aðrir kreista hann á aðra leið. Samt sem áður þótti bókin skiljanlega
mikill viðburður í enskumælandi löndum, og nú fengu þeir Liddell, Price og
York Powell loks nokkru ágengt með embœttið, því forstöðumenn „hins al-
menna kennslusjóðs" (Common University Fund) skipuðu Guðbrand lektor
(Lecturer) í íslenskum bókmenntum og fornfræði þann 6. maí 1884. Ekki lét
hinn nýi lektor bíða eftir sér með að boða kennslu, heldur tilkynnti hann í