Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 20
18
PÁLL THEODÓRSSON
ANDVARI
Hann grannskoðaði þær og tók að spyrja mig í þaula um línurit, töflur
og myndir í skýrslunum, hvernig æfingarnar hefðu verið framkvæmdar
og með hvaða tækjum. Hann sagði að þessu loknu að ekki mundi verða
frá sinni hálfu nein fyrirstaða gegn beiðni minni, þetta væru frábærar
æfingar, sem við hefðum verið látnir leysa. Hann spurði í lokin hver
hefði verið kennari minn. Þegar hann heyrði það sagði hann að ég
þyrfti ekki að hafa nokkrar áhyggjur, hann skyldi sjá um að umsókn
mín yrði afgreidd fljótt og vel. Þorbjörn Sigurgeirsson hafði verið
nemandi hans.
Samhliða stundakennslunni tók Þorbjörn að leggja stund á jarðeðl-
isfræðilegar rannsóknir. Trausti Einarsson hafði rannsakað íslensk
hverasvæði allmikið. Rannsóknaaðferð Trausta byggðist fyrst og
fremst á einföldum en umfangsmiklum athugunum og fræðilegum
útreikningum. Þorbjörn vildi hinsvegar kanna og mæla fyrirbærin ná-
kvæmar. Hann rannsakaði Geysi allítarlega 1946 til að leita skýringa á
hvernig gos myndast. Nákvæmari vitneskju varð að fá um hita í
hvernum, bæði fyrir gos og meðan á því stendur. Erlendir vísindamenn
höfðu rannsakað þetta nokkuð en með ófullkomnum tækjum. Þor-
björn innleiddi nýja tækni í íslenskum jarðhitarannsóknum þegar hann
beitti sérstöku rafviðnámi, termistor, til að nema hitann. Kostirnir eru
þrír, neminn gat verið í allnokkurri fjarlægð frá aflestrartækinu, hann
svaraði hitabreytingum mjög snöggt og loks var mögulegt að skrá
hitastigið á sírita, sem er nauðsynlegt þegar fylgjast þarf með örum
hitabreytingum.
Hinn 29. mars 1947 rauf Hekla morgunkyrrðina með miklu
eldgosi. Islensk eldfjöll höfðu lítið látið á sér bæra lengi, og nú vöknuðu
margir upp við vondan draum og vísindamönnum var sköpuð betri
aðstaða en þeir höfðu áður haft til eldfjallarannsókna. Nú var spurt,
hvað veldur þessum ógnarkrafti náttúrunnar? Að vonum datt nú ýms-
um í hug að kjarnorka gæti átt nokkurn þátt í að hrinda af stað gosum.
Ef svo var hlaut sterk geislun að vera við gíginn.Ýmsir töldu sig sjá
merki þess að svo væri og fullyrtu (og jafnvel trúðu) að menn gætu
orðið ófrjóir, ef þeir héldu sig þar of lengi. Það kom sér nú vel að
Þorbjörn hafði smíðað sér geigerteljarakerfi í Bandaríkjunum til
mælinga á kjarnageislun. Hann braust upp á Heklu með geigerteljara
sinn og blýgeyma til að mæla geislavirknina þar. Uppi á Heklu mældist
þó engin óvenjuleg geislavirkni. í framhaldi af þessu safnaði Þorbjörn
allmörgum bergsýnum úr nýja hrauninu og eldri hraunum og mældi