Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 110
108
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
einskonar mælikvarða á formlega tjáningu þessara tveggja meginþýðenda
okkar. Er það ef til vill táknrænt að báðir skuli þeir hverfa frá þessu tíma-
mótaljóði módernismans eftir að hafa þýtt lítinn hluta þess?20 Eess verður þó
að geta í þessu sambandi að Helgi hefur þýtt ,,Hola menn“ eftir Eliot, en það
er einnig allmikilvægt módernískt ljóð.
Og Helgi er margfaldari í roðinu en ætla má við lausleg kynni. Pað sést
meðal annars á því að hann skuli hafa ráðist í að þýða kínversk og japönsk
Ijóð.21 Hvernig skyldu þau nú ætla að skáskjóta sér inn í íslenska bók-
menntasögu? Eysteinn Þorvaldsson hefur sagt frá því í grein að hann láti
stundum nemendur sína lesa vissar tegundir af fornum kveðskap, meðal
annars „ævagamlar hækur og tönkur í þýðingu Helga Hálfdanarsonar“ og
velta fyrir sér stöðu þeirra í bókmenntasögunni. Nemendur telja gjarnan að
þessir textar séu ,,nútímaljóð“ eða „atómljóð“.22 Það er ekki að ófyrirsynju,
því þegar þessi skáldskapur er lesinn í bókmenntakerfi okkar virðist hann
kallast á við einmitt slík ljóð. Helgi er þarmeð orðinn módernískur „höfund-
ur“, hvort sem það var nú ætlunin eða ekki! Þetta minnir að sínu leyti á þátt
fornrar austurlenskrar ljóðlistar í uppgangi módernismans í ljóðagerð fyrr á
öldinni, en það var ekki síst Ezra Pound sem sá um þá milligöngu.23 Þýðingar
eru einmitt, eins og ég ýjaði að fyrr, einn helsti vettvangur frjórrar tíma-
skekkju í bókmenntasögunni, þar sem ólík tímaskeið og menningarsvið eru
látin ræða saman „á jafnréttisgrundvelli“.
En það er fleira sem gerir stöðu Helga sem höfundar íslensks skáldskapar-
máls tiltölulega flókna. Þótt hann leiti iðulega eftir klassískri heiðríkju og
sverji sig oft í ætt við hefðbundna ljóðamiðlun Magnúsar Ásgeirssonar, þá er
mál Helga þó gjarnan íburðarmeira, jafnvel svo að kenna má við barokkskan
íburð þegar lengst gengur. Og það má ekki gleyma því að viðamesta verk
hans sem þýðanda er einmitt þýðing á leikverkum Williams Shakespeare,
þess höfuðskálds sem tengir Endurreisnina og barrokkstíl og gleypir hiklaust
allar mótsagnir sem kvikna af þeim samleik. í glímunni við Shakespeare sést
best hvernig nýsköpun og klassík fara saman hjá Helga. Hann ástundar mikla
formfágun, stílögun og málvöndun, en um leið oft magnaða samþjöppun
máls og ýmsa nýbreytni í orðabúskap. Með því að halda skapandi tryggð við
klassísk form ögrar hann tungumáli sínu og tjáningarhæfni þess.24 Því mega
til dæmis þeir sem telja Helga íhaldssaman fulltrúa íslenskrar málvöndunar-
stefnu (ég hef í huga viðbrögð við blaðagreinum hans um þau mál) ekki
gleyma því að hann er líka einn helsti nýsköpunarmaður í íslenskum bók-
menntum síðustu áratuga — þ.e. sem þýðandi í glímu við íslenska tungu.
Raunar er öll staða Helga í íslensku bókmenntalífi enn mjög óljós. Það
leikur enginn vafi á að hann hefur hlotið mikla viðurkenningu í orði kveðnu,
þótt verk hans hafi lítt verið könnuð. Hann hefur í raun verið „kanóní-
seraður“ án þess að vera í neinni tiltekinni ,,kanónu“ eða hefðarveldi. Ég