Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 61
ANDVARI
ÞORBJÖRN SIGURGEIRSSON
59
sínum. Hann átti vísan stuðning hjá fjölda manns innan skólans sem
utan, manna sem hann, oft eftir stutta viðkynningu, hafði unnið sér
traust hjá.
Þorbjörn tranaði sér aldrei fram og vann verk sín í kyrrþey. í
hópi vina og samstarfsmanna var hann hlýr og kátur, oft gáskafull-
ur. Hann forðaðist að láta draga sig frá rannsóknum sínum en átti þó
sæti í fjölda nefnda og var þá formaður í þeim frekar en ekki, enda
var hann ávallt reiðubúinn að leggja hönd á plóg þegar þarft málefni
var annars vegar. Sóst var eftir að fá Porbjörn til að taka þátt í að leysa
margvísleg erfið verkefni því hann var fljótur að koma auga á megin-
atriði hvers máls, var ráðagóður, laginn við að sætta andstæð sjónarmið
og loks hafði hann næmt skyn á hvað væri mögulegt. Væri ekki hægt að
sætta sjónarmið beitti hann hinsvegar sjaldan áhrifavaldi sínu til að
skera úr málum, jafnvel þótt hann hefði traustan stuðning að baki sér.
Á meginhluta starfsferils Þorbjörns voru kjaramál opinberra
starfsmanna sem frumskógur, og þeir sem beittu lögmálum frumskóg-
arins komust vel af, en hinir óku í Trabant, eða Skóda þegar betur lét.
Það var fjarri skapgerð Þorbjörns að taka þátt í þeirri baráttu nema
þegar hann var til þess knúinn af yngri mönnum sem unnu hjá honum
til að rétta nokkuð kjör þeirra. Þorbjörn lifði því alla tíð við kröpp kjör,
á stundum mjög kröpp. Það er dapurlegt að hugsa til þess hvernig hið
auðuga íslenska samfélag launar afburöamönnum sínum, mönnum
sem leggja fram alla sína krafta og tíma til að treysta þá undirstöðu,
sem velmegunin hvílir á.
XX Lokaorð
Óvenjuleg breidd einkenndi starfsferil Þorbjörns Sigurgeirssonar.
Starf hans var þríþætt, hann var forvígismaður, vísindamaður og
kennari. Hann ruddi brautina með því að hrinda af stað ýmsum verk-
efnum, en lét síðan flest þeirra í hendur yngri manna. Hann var afburða
vísindamaður, sem var fundvís á einfaldar lausnir en hikaði þó ekki við
að byggja upp margbrotin mælikerfi. Loks var hann kennari og rétt er
að muna að um helmingur af venjulegum starfstíma fór í kennslu. En
daglegur starfstími Þorbjörns var reyndar langt frá því að vera venju-
legur.
Þorbjörn vann við mikinn fjölda ólíkra verkefna á starfsævi sinni.