Andvari - 01.01.1999, Page 48
46
VÉSTEINN ÓLASON
ANDVARI
þeim áhrifamætti sem þær óumdeilanlega hafa, jafnframt því að þær
skera sig úr, eru ólíkar öðru sem skrifað var í Evrópu á sama skeiði.
Augljóst er að þær eru ekki sprottnar upp úr klausturmenningu né
afsprengi kristilegra fræðslubókmennta. Samt er hin kristilega bók-
menning ein meginforsenda þeirra.
Fáa greinir líklega á við Einar Ólaf um mynd þá sem hann dregur
af mikilvægum samleik kirkjunnar og veraldlegs valds, eða a.m.k.
nokkurra höfðingjaætta, á 12. öld. Líklegra virðist mér nú að það sé
framhald þessa samleiks á 13. öld, sem er undirstaða hinna mestu
bókmennta, fremur en tvískipting menningarinnar milli hins verald-
lega og hins kirkjulega. Veraldarhöfðingjar voru of mótaðir af boð-
skap kirkjunnar og of háðir henni í menningarlegum efnum til að
þeir gætu átt sína eigin menningu. Þegar Sturlungar eflast sem mest á
öndverðri 13. öld leitast þeir raunar við að styrkja sambönd sín við
kirkjuna. Ástæður þeirra breytinga sem urðu á menningarlífi og
sagnaritun um 1300 eru margbrotnari en svo að kirkjuvaldinu verði
‘kennt um’ það sem til hnignunar má telja.
Mælska Einars Ólafs í ritinu Um Sturlungaöld og tilfinningahitinn
í þessu riti hefur villt sumum lesendum hans sýn, svo að þeim hefur
sést yfir það hve mjög hann er næmur fyrir kristilegum áhrifum og
hugsun hvarvetna í ritum sínum og hve vel hann kann að meta gildi
kristninnar fyrir mannlífið. Lítil tilvitnun í lok kaflans Bergmál leiðir
það þó vel í ljós:
Draumar og fyrirburðir Sturlungaaldar eru útrás og tjáning þjáningar og
skelfingar; það léttir, veitir svíun. En ekki huggun. Hin forna siðaskoðun
veitti kraft til að lifa, horfa framan í staðreyndirnar, en ekki huggun aðra en
þá sem græðandi tíminn veitir. Huggun var annarstaðar að fá, hjá kirkjunni
(110).
Árið 1962 birtist umfangsmesta verk Einars Ólafs Sveinssonar, ef út-
gáfa Brennu-Njáls sögu er undan skilin, íslenzkar bókmenntir íforn-
öld I. Líklega hefur verkinu verið ætlað að verða þrjú eða fjögur
bindi, en í þessu fyrsta bindi er almennur sögulegur inngangur um
víkingaöld og upphaf byggðar og mannfélags á Islandi, yfirlit yfir
fornan kveðskap og rætur hans og kafli um eddukvæði, sem er meg-
inefni bókarinnar. Hér er mjög rækileg umfjöllun, og er ljóst að verk-
inu hefur verið ætlað að leysa af hólmi hina löngu úreltu bókmennta-
sögu Finns Jónssonar. Aldrei kom meira út af þessu verki, en all-