Menntamál - 01.12.1939, Blaðsíða 21
MENNTAMÁL
147
í skólanum, þegar vel tekst, en sá áhugi er þeim mjög
sjaldan lifandi uppspretta nýs áhuga og nýrra afreka. Og
sjaldan fylgir hann barninu langt út fyrir veggi skólans
eða varir að námstíma þeirra loknum. Þetta er þó illa
farið. Og hætt er við, að við, með þessum hætti, ölum upp
áhugalausa, eigingjarna ónytjunga, sem lítt verða færir
um að skapa þjóð vorri glæsilega framtíð, né sjálfum sér
góð og holl lífsskilyrði.
Það er svo með allt líf, að einstaklingurinn verður að
fá að vaxa eftir sínum hætti. Og um börn er það svo, að
þótt uppeldi þeirra lúti að vísu sömu heildarlögmálum,
þá verður hvert einstakt barn að fara að nokkru leyti
sínar eigin leiðir til manndóms og þroska, ef sálarlíf ein-
staklingsins á að vera heilbrigt og fullkomið samræmi
milli vilja og athafnalífs þess.
Þá er annað atriði, sem er einnig höfuðnauðsyn góðs
uppeldis.
Svo fljótt sem auðið er, þarf barnið að fá skyldur við
sitt hæfi. Það þarf alltaf að eiga áhugaefni, sem það getur
unnið að í frítímum sínum. Barnið þarf ávallt að eygja
takmark, sem það getur keppt að, þar sem það getur unnið
sigra, bæði á sjálfu sér og þeim viðfangsefnum, sem leiöa
að takmarkinu.
Barnið er félagsvera, og í samstarfi með öðrum börnum
þroskast ýmsir beztu eiginleikar þess, eftir að vissum aldri
er náð. Þess vegna ætti skólinn að geta verið barninu holl
félagsheild, ef störf skólans veittu barninu nógu frjáls og
hugðnæm verkefni. Þó hygg ég að þessu yrði vænlegar kom-
ið fyrir með því, að skólinn tæki í sína þjónustu félags-
formið og fengi á þann hátt börnin til að vinna meira
saman að ákveðnum hollum viðfangsefnum, annaðhvort
án fastbundins félagsskapar í sjálfu starfi og náminu, eða
þá að skólinn stuðlaði að því, að börnin mynduðu félag,
sem væri að meira eða minna leyti í nánu samstarfi við
sjálft skólastarfið. Það myndi, ef vel tækist, auðga störf
10*