Skírnir - 01.01.1924, Qupperneq 18
10 Dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður. [Skirnir
mesta af öllum ritstörfum hans, og verður að víkja að
því nokkru nánar.
Árið 1857 byrjaði Bókmenntafélagið á útgáfu Fornbréfa-
safnsins, og var Jóni Sigurðssyni falið að sjá um hana.
En verkið sóttist seint, er meðal annars stafaði af því,
að útgefandinn lét langar sögulegar skýringar fylgja bréf-
unum, og öll hin merkustu þeirra voru prentuð í heild
sinni eptir mismunandi textum, t. d. Reykholtsmáldagi,
■Gamli sáttmáli o. fi., og tafði þetta svo mjög fyrir útgáf-
unni, að á 20 árum (1857—1876) kom að eins út fyrsta
bindið, er náði til 1264. Við fráfall Jóns Sigurðssonar
(1879) var því ekki annað sýnna, en að félagið mundi
alveg hætta við útgáfuna. Var og ekki mörgum á að
skipa, er færir voru til þess að halda henni áfram, sízt
i samskonar mynd, enda liðu svo nokkur ár, að ekkert
var við þessu hreyft. En þá vildi svo happalega til, að
dr. Jón fór þess á leit við félagið 1886, sama árið og
hann lauk embættisprófi, að það veitti honum fé til þess
að halda útgáfunni áfram. Jafnframt sótti þá annar
maður, Pálmi Pálsson cand. mag. (síðar yfirkennari) um
þetta sama starf, en svo fór, að dr. Jón varð hlutskarpari,
og var það heppilega ráðið, því að þótt enginn efaðist
um samvizkusemi og nákvæmni Pálma í þessum efnum,
þá skorti hann dugnað og harðfylgi dr. Jóns, með því að
hann var enginn áhlaupamaður til verka, og mundi því
útgáfan hafa orðið nokkuð hægfara í höndum hans og
óvíst, hve lengi hann hefði haft það starf á hendi.
Fékk dr. Jón 600 kr. styrk á ári úr ríkissjóði Dana með
bréfi kennslumálastjórnarinnar í janúar 1887, en alþingi
veitti s. á. jafnmikla upphæð úr landssjóði. Hinsvegar
lofaði Bókmenntafélagið að annast prentkostnaðinn, og var
málinu þannig borgið. Jafnframt var ákveðið að gefa
eptirleiðis út að eins texta bréfanna, án nokkurra sögulegra
skýringa, og var það réttilega ráðið, þvi að þær hefðu
í raun réttri orðið þýðingarlitlar, og verkinu hlaut að
miða miklu hraðar áfram með þessari breytingu, enda
reyndist það svo. 1894 var styrkurinn úr ríkissjóði Dana