Iðunn : nýr flokkur - 01.01.1930, Síða 37
IÐUNN
Á Alþingi 1631.
31
— Ráðsmaðurinn hefur sagt mér, tók hún til máls, aÖ
skipið fari héðan af Bakkanum á laugardaginn í næstu
viku. Gísli sonur minn kemur þá hingað á föstudag.
Hún bar eitt augnablik deshúsið upp að nösunum og
sagði því næst:
— Hann er glaðsinna maður og hraustur, Gísli
sonur minn.
— Hann er orðlagt hraustmenni um alt Iand, svaraði
Ketill — eins og hann er orðlagður prédikari, bætti
hann við.
— Og glaðsinna? inti biskupsfrúin fastara en áður.
— ]á.
— Nema þegar hann er einn. Þar er hann ólíkur
öllum mínum börnum. Einveran gerir hann þunglyndan.
Ketill hafði ekki tekið eftir því sérstaklega, en þetta
gat vel verið. Hann svaraði engu.
Biskupsfrúin hélt áfram:
— Eg hef hugsað mér að láta honum ekki leiðast á
þessari vígsluferð sinni. Mér er ant um að hún takist
vei, hann á nóga öfundarmenn samt. Og því hef ég
ákveðið, að þú skalt fara með honum.
Ketill rak upp stór augu. Biskupsfrúin gaf sér að eins
tíma til að sjá, að það hýrnaði yfir honum, svo sagði hún:
— Þeir hafa betra vín og ölföng úti í Kaupenhafn
en við hér hjá okkur. Þú átt að sjá um, að honum þyki
það ekki of gott.
Frú Helga stóð upp og réfti úr sér:
— Þú átt að sjá um það, sagði hún fast — og
nú geturðu farið að búa þig undir ferðina.
Ketill ]örundsson hafði skilið frú Helgu út í æsar.
Hún hafði áður verið biskupsfrú, nú var hún biskups-
móðir. Hann gekk hægt og alvarlega út úr stofunni.