Uppeldi og menntun - 01.01.1998, Qupperneq 27
ELIN THORARENSEN
fall með því að efla samstarf heimila og skóla (t.d. Berger 1995:6, Geiger 1992:314).
Einnig hefur verið sýnt fram á jákvæð tengsl á milli mætinga foreldra á skólavið-
burði og skólasóknar nemenda (Dornbuch og Ritter 1988:76). Að lokum má nefna
að með einni rannsókn var sýnt fram á að samstarf heimila og framhaldsskóla skil-
aði litlum árangri ef nemendur hefðu ekki kynnst slíku samstarfi í grunnskóla
(Epstein 1995:707). Þannig virðist sem samstarf heimila og grunnskóla sé forsenda
árangursríks samstarfs heimila og framhaldsskóla.
Erlendar rannsóknir sýna jafnframt að meirihluti nemenda, foreldra og kennara
er hlynntur samstarfi á öllum skólastigum og telur það bæta skólastarf og stuðla að
auknum námsárangri (Epstein 1995:703). Ekki er hægt að heimfæra þessar niður-
stöður beint á íslenskar aðstæður og er því forvitnilegt að skoða viðhorf þessara
aðila til samstarfs heimila og framhaldsskóla hér á landi.
SKILGREINING Á SAMSTARFI HEIMILA OG SKÓLA
Ýmsir fræðimenn benda á að ekki er til ein rétt útfærsla á samstarfi heimila og skóla
heldur þurfi hver skóli að móta samstarf sem hentar aðstæðum hans þannig að það
mæti þörfum nemenda skólans, áhuga þeirra, getu og aldri (t.d. Berger 1995:10,
Epstein 1995:703, Jesse 1997:2, Johansson og Orving 1993:162). Epstein (1995:704)
hefur sett fram skilgreiningu á samstarfi heimila og skóla sem hefur hlotið almenna
viðurkenningu, en að hennar mati eru til staðar sex sameiginlegir þættir samstarfs á
öllum skólastigum. Þessir sex þættir eru: Foreldrahlutverk, samskipti, sjálfboða-
vinna, heimavinna, ákvarðanataka og samvinna við samfélagið. Hver þáttur felur í
sér margar ólíkar gerðir samskipta, viðfangsefni sem skólinn þarf að leysa til að ná
að virkja alla foreldra og endurskilgreiningar á ýmsum þáttum samstarfs. Epstein
(1995:707) segir að skilgreining hennar minni fólk á að öll samskipti heimila og
skóla hafi ekki þau áhrif að bæta námsárangur heldur séu sum samskipti líklegri til
að bæta til dæmis viðhorf og hegðun nemenda. Áhrif samstarfs fyrir nemendur,
foreldra og kennara fara eftir því hvaða áherslur eru lagðar í samstarfinu og hver
gæði þess eru. Samstarf verður best og áhrifaríkast þegar það spannar að einhverju
leyti alla þessa sex þætti. Skilgreining Epstein á samstarfi var notuð sem viðmið við
flokkun framhaldsskólanna í könnun á umfangi samstarfs.
RANNSÓKNARAÐFERÐ
Þátttakendur
Könnunin sem hér um ræðir var tvíþætt þar sem annars vegar var skoðað hvernig
samstarfi heimila og skóla var háttað í framhaldsskólum landsins veturinn 1995-
1996 og hins vegar var gerð könnun á viðhorfum fólks til slíks samstarfs haustið
1996. Til að kanna umfang samstarfsins var haft samband við skólastjóra og/eða
námsráðgjafa í öllum framhaldsskólum landsins og þeir beðnir um að svara spurn-
ingum um samstarf við foreldra nemenda í þeirra skóla. Svör bárust frá 21 skóla af
24 sem eru 87,5% skil. Notast var við upplýsingar frá skólunum til að flokka þá í
25