Tímarit lögfræðinga - 01.12.1999, Side 6
og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst, ber lögreglu
að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af brotaþolanum. I þessum
tilvikum getur dómari kvatt kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku.
Þessar skýrslur ber að taka upp á myndband sé þess kostur.
Hér er um að ræða nýmæli að því leyti að áður var þeim sem stýrði rannsókn
heimilt að leita til dómara um skýrslutöku fyrir dómi á nreðan mál var í
rannsókn, t.d. þegar um börn var að ræða, en nú skylt í ákveðnum tilvikum. Þá
er það nýmæli að dómari geti kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar.
Segja má að þessar breytingar á lögunum um meðferð opinberra mála hefði
þurft að ræða rækilega meðal þeirra sem að þessum málum koma áður en í þær
var ráðist. Hugmyndin sem að baki býr er góð og gild, þ.e. að hlífa barni við að
koma oftar en einu sinni fyrir yfirvald til að gefa skýrslu vegna brots sem talið
er beinast gegn því. Hins vegar er afar hæpið að láta sömu reglur gilda um börn
og unglinga að þessu leyti. A hinum Norðurlöndunum, þar sem sérreglur af
þessu tagi eru í gildi, er aldurshámarkið hvergi hærra en 14 ár. Þá hefðu regl-
urnar um réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur þessar þurft að vera skýrari.
Ennfremur má benda á að æskilegt hefði verið að í lögunum væri ákvæði um
það hvort dómara er heimilt að stýra yfirheyrslu úr annarri vistarveru en þeirri
þar sem yfirheyrslan fer fram, þ.e.a.s. hvort nægilegt er að kunnáttumaður,
þegar hann er kallaður til, sé einn með þeim sem skýrsluna gefur. Þá er ljóst að
æskilegt hefði verið að dómstólarnir hefðu fengið rýmri tíma til þess að
undirbúa framkvæmd þessarar lagabreytingar og móta aðferðir við hana. A það
jafnt við þekkingaröflun og sérbúnað fyrir þessar yfirheyrslur. Sérbúið húsnæði
var fyrir hendi í Héraðsdómi Reykjavíkur og verið var að koma þar fyrir tækja-
búnaði þegar lögin tóku gildi. I frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000 er gert ráð
fyrir fjárveitingu til þess að koma upp aðstöðu í Héraðsdómi Norðurlands
eystra og Héraðsdómi Reykjaness fyrir þessar sérstöku yfirheyrslur, þannig að
í rétta átt miðar.
Nú vill svo vel til að dómsmálaráðherra hefur boðað heildarendurskoðun á
lögunum um meðferð opinberra mála. Ljóst er að þau nýmæli sem breytingar-
lögin nr. 36/1999 hafa að geyma er rétt að endurskoða að fenginni reynslu, jafnt
sem lögin um meðferð opinberra mála að öðru leyti. Rétt er að leggja áherslu á
það, þótt við blasi að ýmislegt þurfi að laga við meðferð opinberra mála, þá er
þörfin ekki svo brýn að viðhafa þurfi sama flýti og þegar breytingarlögin voru
sett. Þvert móti er full ástæða til þess að efna til umræðu um æskilegar breyt-
ingar og nauðsynlegt er að sem flestir komi að henni.
286