Saga - 1977, Síða 67
ÞRÆLAHALD Á ÍSLANDI
61
ur verið, að á víkingaöld hafi flestir þrælar á Norðurlönd-
um verið fyrrverandi stríðsfangar, höfðu þeir í raun og
veru þegar verið valdir úr einhverjum hópi manna. Þræl-
arnir, sem fluttir voru til Islands, hafa að öllum líkindum
flestir verið gæddir hreysti og góðum gáfum. Sumir hlutu
frelsi þegar í upphafi og töldust jafnvel til landnáms-
manna. Á fyrstu öld byggðarinnar er hægt að benda á
tvenns konar hvatir, sem gátu legið til þess að þrælum yrði
gefið frelsi. Fyrst ber að gæta þess að maður, sem vildi
komast til vegs og virðingar sem goði eða á annan hátt,
þurfti að afla sér stuðningsmanna, en þeir urðu að vera
frjálsir og ábyrgir gagnvart lögunum. Honum var enginn
pólitískur akkur í þrælum. 1 öðru lagi, þegar búið var að
brjóta land og reisa bæi og tryggja afkomuna með því
að leggja grundvöll að landbúnaði hlýtur að hafa þótt æski-
legt, meðan landrými var nóg, að láta duglega menn sjá
fyrir sér og sínum sem leiglendinga eða búðsetumenn.
Frjálst vinnuafl, sem eflaust var oft bundið kvöðum, borg-
aði sig betur en þrælahald og hefur verið áhyggjuminna.
Eins og lögbækur sýna, var hampalítið að gefa þræl-
um frelsi, og eins og áður getur, bendir þetta helst til þess
að þeir hafi ekki verið mjög margir. Þeim, sem fæddust í
ánauð, fækkaði auðvitað eftir því sem leysingjum fjölg-
aði, og frjálsir menn sem gátu börn með ambáttum, kærðu
sig oft ekki um að börn þeirra yrðu þrælar. Eðlileg fólks-
fjölgun og velmegun á 10. öld vitna ekki um skort á
vinnukrafti, og innflutningur þræla hefur þvi fljótlega
lagst niður. Hafa má í huga, að það var mjög áhættusamt
að kaupa þræl: 3 merkur silfurs gátu farið fyrir lítið ef
slys eða sjúkdóm bar að höndum — nýtr manngi nás —
og í þessu tilliti var þrællinn ólíkur og „annat fé“.47)
47) Danmarks gamle Landskabslove I, 1 (1933), 85 (Skánske Lov,
115). — C. Verlinden, L’esclavage dans l’Europe médiévale I
(1955), 42—5, heldur því fram, að í sjálfu sér sé ekkert því til
fyrirstöðu að þrælahald geti haldist endalaust en mér finnst
vel skiljanlegt að það skyldi líða undir lok á Islandi til forna.