Saga - 1977, Page 111
FRÁ SAUÐFJÁRBÚSKAP TIL AKURYRKJU 105
af fólki, helzt gamalmennum. Þ. 9. til þess 12. lá Sigurbjörg,
og annað slagið höfum við öll orðið veik.“
Þá kemur sá hluti sögunnar, sem sagður verður sem
mest með orðum dagbókarhöfundar og með sem minnstum
styttingum, en þó án tilvitnunarmerkja. Er það frásögnin
af brottförinni af ættlandinu og ferðinni til fyrirheitna
landsins, þar sem niðjarnir hafa til þessa átt athvarf og
hæli og eru fyrir löngu orðnir eins hagvanir og hinir fyrri
Jónar voru í nágrenni Mjóadals og Mýrar í Bárðardal.
Hinn 13. júlí, sem var sunnudaginn 5. eftir trinitatis,
lögðu heimamenn Mjóadals á stað alfarið þaðan og út að
Mýri. Þaðan var farið næsta dag að Eyjardalsá og verið
þar um kyrrt hinn 15. Þann 16. var farið í Hróastaði, 17.
inn á Akureyri í hríðarveðri. Þar var svo setið þrjár vikur
og 4 daga að kalla verklaust, þangað til farið var um borð
í gufuskipið Queen, sem í raun réttri var hrossaflutninga-
skip. Með því fóru 153 Islendingar (auk 200 hrossa) til
Skotlands.
„Emigrantar fóru um borð þ. 4. ágúst og skipið á stað
kl 10 e.m. —“
Mjóadalsmenn voru fjögur saman: Jón Jónsson, 39 ára,
Sigurbjörg, kona hans, 50 ára; Helga Sigríður, dóttir
þéirra, 14 ára; og sonurinn Jón, 11 ára.
Hinn 6. ágúst var haldið austur með Norðurlandi og síð-
an suður með Austurlandi. Var þá lengst af hvass mót-
vindur á austan, svo að flestir veiktust. Hinn 7. var farið
suður hjá Færeyjum. Hinn 8. sást Hjaltland, og var komið
þar við í Leirvík. Hinn 9. var komið við í Aberdeen og
síðan í Granton í Skotl. Voru hestarnir settir þar á land.
Snemma morguns sunnudaginn 10. ágúst stigu vestur-
farar á land í Granton og héldu þaðan með járnbraut til
Edinborgar. Eftir nokkra dvöl þar var haldið áfram til
Glasgow. Þar var haldið kyrru fyrir þann 11. Næsta dag
var stigið um borð á gufuskipinu Manitoban, 2394 tonna
skip, og haldið með því vestur um hafið.