Saga - 1977, Qupperneq 122
116
SIGURJÓN EINARSSON
þvinga til nokkurrar vinnu eða neins þess, sem spillt gæti
mjólk hennar, lífi hennar eða lífi barnsins, að ekki sé
talað um hættuna á, að hún geti ekki alið annað barn.
Hér skal þess, m. ö. o., gætt, að konan glati ekki rétti
sínum, þótt inntaki siðarins sé breytt og öll sú launhelgi
og hreinsun, sem í honum var fólgin, sé þvegin burtu.
Kirkjuleiðslunni vill Palladíus halda, því að hún á að
verða eins konar staðfesting þess, að konan hafi ahð barn
sitt í löglegu hjónabandi og sé nú komin til heilsu og
geti aftur tekið upp sín fyrri störf, þjónustuna við mann
sinn, — við borð hans og sæng, þv.í að „kvinnurnar veri
sínum bændum undirgefnar, svo sem Drottni, því að mað-
urinn er kvinnunnar höfuð líka svo sem Kristur er safn-
aðarins höfuð“.6)
Palladíus bendir á, að hið „óguðlega páfafólk, sem fyrir-
líti hjónabandið“ hafi misnotað þá athöfn, þrátt fyrir það,
að guð hafi blessað hjónabandið og ávexti þess. En „páfa-
pakkið“, segir hann, leyfir sér að tala með fyrirlitningu
um konuna á barnssæng og hefur sagt, að hún sé óhrein;
við þær aðstæður standi djöfullinn henni nær en Guð al-
máttugur og þess vegna sé nauðsynlegt að hreinsa hana,
áður en hún komi í kirkjuna í fyrsta sinn eftir fæðingu.
En nú er allt með öðrum brag, heldur hann áfram. Nú
ber frjósemin vott um blessun guðs og þegar dandikvinna
kemur til kirkjudyra þá skal hennar sóknarprestur veita
henni aðra þjónustu en þá, sem fólgin er í kveikingu Ijósa
og vígslu vatns, — slíkt, segir Palladíus, að nú sé alveg
aflagt í ríkjum Danakonungs, og sú kona, sem óski slíks,
gefi það eitt til kynna, að hún sé haldin djöflinum, en sá
kumpán verði nú ekki rekinn burtu með ljósi og vatni; þar
verði að beita öðrum og kröftugri brögðum.
Eins og hér hefur komið fram, verður raunin sú, að sið-
skiptamenn halda þessum kirkjusið, en líta ekki svo á, að
®) Úr giftingarrituali í Handbók Marteins Einarssonar.