Saga - 1977, Page 189
FOSSAKAUP OG FRAMKVÆMDAÁFORM 183
lega.11) Hér skal þó vikið að nokkrum atriðum, er þetta
varða. Þar er þá fyrst til að taka, að Titan og systurfélög
þess eignuðust nær öll vatnsréttindi sín með kaupum. Eina
undantekningin frá þessu var hluti prestssetursins og
kirkjustaðarins Kálfholts í Urriðafossi, sem rætt var um
hér að framan, en þar var einungis um leigu að ræða.
Stofninn í vatnsréttindum Titans voru réttindi þau, sem
Gestur Einarsson á Hæli tryggði sér umráð yfir þegar
árið 1909 með umboðum frá einstökum landeigendum eða
hreppsnefndum einstakra hreppa, sem áttu afrétt með-
fram Þjórsá og þverám hennar. Það voru einmitt þessi rétt-
indi, sem Gestur hafði framselt Þorleifi Guðmundssyni ár-
ið 1911, en hann aftur selt Brillouin konsúl forkaupsrétt
að til tveggja ára. Eins og greint var frá hér að framan
notuðu Brillouin og starfsfélag hans sér ekki þennan rétt,
og féllu því umráð þessara vatnsréttinda aftur til Þorleifs
Guðmundssonar að umræddum tveggja ára tíma liðnum.
Þorleifur seldi síðan Sturlu Jónssyni kaupmanni í Reykja-
vík öll þessi réttindi í janúar 1914, en samkomulag um sölu
réttindanna var gert þegar um sumarið 1913.12) Þá tókust
líka persónuleg kynni milli þeirra Þorleifs og Einars Bene-
.diktssonar.13) Upp úr þessu gerðist Þorleifur hluthafi í
Titan, og átti hann milli 40 og 50 hlutabréf í félaginu í árs-
byrjun 1916.14) Sturla keypti réttindin á vegum Titans,
sem raunar var þá ekki búið að stofna formlega. Kaup-
11) 1 frásögn þeirri, sem hér fer á eftir, er að nokkru leyti stuðzt
við nefndarálit fossanefndarinnar (álit minnihlutans bls. 55—61
sem einnig er birt í áliti meirihlutans). Mestan stuðning hefur
þó verið að hafa af ýmsum skjölum, sem höf. fékk hjá Ragnari
Jónssyni hæstaréttarlögmanni, sem á sínum tíma annaðist fé-
lagsslit Titans. Er þar einkum að nefna Registur yfir heimild-
arskjöl H/F Titan og Útdrátt úr heimildarskjölum Titan h/f.
12) Skjal þessu til staðfestu í safni Þorleifs.
13) Bréf Einars í safni Þorleifs.
14) Kemur fram í plöggum í safni Þorleifs. Sbr. einnig sérleyfis-
umsókn Titans 1919.