Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Blaðsíða 106
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 2011106
„mín köllUn er að hJálpa og reyna að láta gott af mér leiða“
Markmið ungmennanna með þátttöku í sjálfboðaliðastarfi
Markmið ungmennanna eru flokkuð sem samfélagslegur ávinningur og persónulegur
ávinningur (sjá töflu).
Samfélagslegur ávinningur. Meginþemað hér er virkur borgari og nefna ungmennin
þætti sem falla þar undir eins og að hafa rödd í samfélaginu, hafa áhrif, sýna umbóta-
vilja og kynna sér mál til að taka upplýsta ákvörðun.
Hjá ungmennunum kemur fram skýr vitund um að borgararnir hafi samhliða rétt-
indum sínum skyldur við aðra og mikilvægt sé að fólk sé virkt í samfélaginu. Ari segir
það skyldu borgaranna að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Tinna er sama sinnis og finnst
ábyrgð borgara vera „að hjálpa“ hver öðrum. Gunnar tekur undir ofangreind viðhorf
og nefnir að með þátttöku í sjálfboðaliðastarfi geti borgararnir haft „heilmikil áhrif“
og telur það skyldu almennings sem hann nýti ekki nægilega. Hann segist líta á það
sem:
gjaldskrána fyrir að fá að taka þátt í … að vera á jörðinni … að taka þátt í einhverju
svona sjálfboðaliðastarfi eða gera eitthvað sem maður getur gert til þess að gefa af
sér og skila út í samfélagið.
Hann bætir við:
Við erum náttúrulega alltaf að reyna að opna huga fólks fyrir aukinni víðsýni og
benda á þessi svona borgaralegu gildi … benda þeim á hvað við eigum að gera sem
borgarar. Við eigum ekki bara að segja: ‚Mér er alveg sama.‘
Hluti af því að vera virkur þjóðfélagsþegn er að þeirra mati að kynna sér hlutina og
taka upplýsta ákvörðun (Ari, Gunnar, Helga, Skúli). Helga leggur sem dæmi mikla
áherslu á að fólk taki þátt og „sýni áhuga“ á að „kynna sér“ málefni samfélagsins, en
telur skorta tækifæri fyrir ungt fólk til að hafa áhrif. Hún bætir við:
Við hugsum of mikið um það að einkunnirnar séu góðar og fólk sé með mikið nám
að baki en hugsum ekki jafnmikið um að eyða tíma í að kenna okkur að verða virkir
þegnar í samfélagi.
Ungmennin nefna sérstaklega það markmið með þátttöku sinni í sjálfboðaliðastarfi að
sýna ábyrgð sem virkir borgarar og endurspeglast það í þátttöku þeirra. Þeim finnst
mikilvægt að miðla þekkingu sinni og reynslu af sjálfboðaliðastarfi til annarra (Ari,
Gunnar, Helga, Skúli). Ari hefur orðið:
Ég var ekkert þannig séð að stefna á það að verða blaðamaður áður en ég fór til
Palestínu. Mér fannst gaman að lesa og kynnast þessu og svona, en þegar maður fór
út: ‚Vá ég þarf að segja frá þessu, dreifa boðskapnum.‘ Þetta er svona hvetjandi til að
segja meira frá.
Hann var á leið í gamla framhaldsskólann sinn með fyrirlestur um sjálfboðaliðastarf
sitt „sem ég hefði aldrei gert hefði ég ekki farið út. Svona vefur þetta upp á sig eins
og snjóbolti“.