Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Blaðsíða 127
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 2011 127
anna- l ind pétUrsdótt i r
minni truflandi hegðun nemendanna sem þeir unnu með. Það er því ljóst að markviss
þjálfun starfsfólks skóla getur skilað sér í bættri hegðun og námsástundun nemenda með
langvarandi hegðunarerfiðleika. Hins vegar hefur verið bent á að þessi þjálfun þyrfti
að koma til sem fyrst í starfi eða meðan á námi stendur svo að starfsfólk skóla geti tekist
á við alvarlega hegðunarerfiðleika um leið og þeirra verður vart (Couvillon, Bullock
og Gable, 2010). Ein leið er að gera þjálfun í framkvæmd virknimats og stuðnings-
áætlunar að þætti í menntun starfsfólks skóla. Í þessari rannsókn er lagt mat á áhrif
þjálfunar háskólanema í framkvæmd virknimats og stuðningsáætlana á langvarandi
hegðunarerfiðleika nemenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Þjálfun starfsfólks í framkvæmd virknimats og stuðningsáætlana
hérlendis
Hérlendis hafa námskeið í atferlisgreiningu öðru hverju staðið starfandi kennurum til
boða á vegum fræðslustofnana. Til að mynda bauð Fræðslumiðstöð Reykjavíkur upp
á námskeið í hagnýtri atferlisgreiningu á árunum 1997–2003 og svo aftur sem þátt í
sérstöku átaksverkefni um bætt samskipti og hegðun á árunum 2006–2008. Þá hafði
höfundur umsjón með námskeiðum í virknimati og stuðningsáætlunum sem starfs-
fólki allra grunnskóla í Reykjavík var boðið á. Markmiðið var að búa til eða styrkja
teymi innan hvers skóla sem gæti veitt kennurum ráðgjöf í meðferð hegðunarerfið-
leika nemenda samkvæmt því lausnamiðaða ferli sem virknimat og stuðningsáætlanir
fela í sér.
Umfjöllun um atferlisgreiningu innan Kennaraháskóla Íslands og síðar Mennta-
vísindasviðs Háskóla Íslands var lengi vel af skornum skammti en kennsla um þetta
efni hefur aukist smám saman. Frá árinu 2009 hefur t.d. verið fjallað ítarlega um fram-
kvæmd virknimats og stuðningsáætlana í valnámskeiði um hegðunar- og tilfinninga-
lega erfiðleika barna. Þar hafa háskólanemar í uppeldis- og menntunarfræðum einnig
fengið tækifæri til að beita aðferðunum á vettvangi með nemendum í leik-, grunn- eða
framhaldsskólum. Í námskeiðinu hafa verið notaðar áþekkar leiðir til þjálfunar og
lýst hefur verið í fyrri rannsóknum (t.d. Crone o.fl., 2007; Renshaw o.fl., 2008). Hins
vegar hefur ekki verið unnt að veita beina handleiðslu í skólaumhverfinu til að tryggja
að aðferðunum sé rétt beitt. Mikilvægt er að kanna hvort hliðstæður árangur náist í
að bæta hegðun barna með langvarandi hegðunarerfiðleika án beinnar handleiðslu
sérfræðinga á vettvangi. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna hvaða breyt-
ingar yrðu á langvarandi hegðunarerfiðleikum nemenda í leik-, grunn- og framhalds-
skólum þegar háskólanemarnir beittu virknimati og stuðningsáætlunum á vettvangi.
Rannsóknarspurningar
Leitast var við að svara þremur spurningum með rannsókninni: Hver eru áhrifin af
framkvæmd háskólanema á virknimati og stuðningsáætlunum á a) truflandi hegðun,
b) árásarhegðun og c) virka þátttöku nemenda með langvarandi hegðunarerfiðleika í
deildar- eða bekkjarstarfi?