Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Blaðsíða 72
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 201172
horft Um öxl
svo sem kennara, foreldra eða rekstraraðila. Á allra síðustu árum hafa í auknum mæli
komið fram rannsóknir þar sem leitað er eftir sjónarmiðum barnanna sjálfra sem í
stofnununum dvelja.
Þegar börn hefja grunnskólagöngu á Íslandi hafa allflest þeirra verið í leikskóla
í fjögur ár. Samt eru það mikilvæg tímamót þegar börn hætta í leikskóla og hefja
grunnskólagöngu. Umgjörð þessara stofnana er ólík, félagslegt samhengi þeirra er
nýtt fyrir börnin og námskröfur eru aðrar (Dockett og Perry, 2006, 2007; Jóhanna
Einarsdóttir, 2006a, 2007b). Börn eru búin undir þessar breytingar með ýmsum hætti
í sínu félagslega umhverfi. Sú rannsókn sem kynnt er í þessari grein var unnin með
börnum í fyrsta bekk grunnskóla með það að markmiði að skoða hvernig þau minnast
leikskóladvalarinnar og hvaða þættir það eru í leikskólanum sem þau telja að hafi
undirbúið þau fyrir grunnskólagönguna. Jafnframt voru viðbrögð leikskólakennara
barnanna við þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá börnunum skoðuð.
sjónarmið barna
Á undanförnum tveimur áratugum hefur aukin áhersla verið lögð á að hlusta á raddir
barna til að öðlast skilning á námi þeirra, lífi og reynslu. Þessi þróun tekur mið af þeim
kenningum og hugmyndum að barnæskan sé félagslega mótuð og að börn séu sjálf-
stæðir borgarar með eigin viðhorf og sjónarmið. Litið er svo á að börn séu hæf og fær
um að taka þátt í samfélaginu og láta í ljósi skoðanir sínar og hafa áhrif á umhverfi
sitt. Litið er á skoðanir barna sem mikilvægar og barnæskuna sem afmarkað rann-
sóknarefni (Christensen og James, 2000; Christenson, 1999; Corsaro, 1997; Dockett,
Jóhanna Einarsdóttir og Perry, 2009; James og Prout, 1997; Jóhanna Einarsdóttir, 2008a,
2008c; Qvortrup, 1994, 2002).
Sýn á ung börn sem hæfa borgara með eigin réttindi og skyldur má rekja til Samnings
Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Sameinuðu þjóðirnar, 1989) og nýlegrar við-
bótar við samninginn sem tekur sérstaklega til barna yngri en átta ára og réttar þeirra
til að taka þátt í ákvörðunum er varða þeirra eigið líf og láta í ljós skoðanir sínar
(United Nations, 2005). Litið er svo á að börn hafi rétt til að láta í ljós skoðanir sínar
og séu hæf til að gefa upplýsingar um eigin reynslu og sjónarmið sem taka beri alvar-
lega. Í rannsóknum er nú leitast við að fræðast um þekkingu barna, sjónarmið og
áhuga með því að nota fjölbreyttar aðferðir sem henta ólíkum börnum í ólíkum
aðstæðum. Þegar unnar eru rannsóknir þar sem leitað er eftir áliti barna á málefnum
sem þau varða er talað um að gera rannsóknir með börnum í stað rannsókna á börnum
(Corsaro og Molinari, 2000a; Mayall, 2000; O'Kane, 2000).
Eftir því sem rannsóknum með ungum börnum hefur fjölgað hefur í auknum mæli
verið fjallað um ýmsar áskoranir tengdar þátttöku barna í rannsóknum og rann-
sakendur hafa bent á álitamál og þversagnir í tengslum við rannsóknir með börnum
(Dockett o.fl., 2009; Eide og Winger, 2005; Jóhanna Einarsdóttir, 2007b; Kjørholt,
2005; Schiller og Jóhanna Einarsdóttir, 2009). Bent hefur verið á að með því að efla
og hlusta á raddir barna sé sú hætta fyrir hendi að aðeins heyrist raddir hinna sterku
í barnahópnum og þær séu síðan túlkaðar sem raddir allra barna en þeim börnum