Uppeldi og menntun - 01.07.2011, Blaðsíða 77
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 20 (2) 2011 77
Jóhanna einarsdóttir
aftur og hvernig þau upplifðu leikskóladvölina. Eftir að gögnin höfðu verið greind tók
ég aftur viðtöl við leikskólakennarana í hóp, kynnti þeim niðurstöðurnar og notaði
þær til að kalla fram umræður um sjónarmið barnanna og reynslu. Með því að hlusta
á börnin og jafnframt á mikilvægar manneskjur í lífi þeirra var leitast við að hlusta á
ólíkar raddir.
Greining gagna
Viðtölin voru hljóðrituð, afrituð frá orði til orðs og síðan flokkuð og kóðuð. Því næst
voru þau færð yfir í NVivo-forritið og flokkuð samkvæmt kóðununum. Rannsóknar-
spurningarnar voru fyrst notaðar sem kóðunarrammi. Um var að ræða lýsandi flokkun
sem fól í sér litla túlkun. Þegar gögnin höfðu verið flokkuð á þennan hátt voru þau
lesin aftur og kóðuð á túlkandi hátt (Miles og Huberman, 1994). Teikningar barnanna
og frásagnir þeirra af þeim voru skoðaðar í samhengi við þá merkingu sem börnin
komu á framfæri en ekki út frá hæfni þeirra til að teikna á ákveðinn hátt (Holliday
o.fl., 2009; Jóhanna Einarsdóttir o.fl., 2009). Í stað þess að greina teikningarnar í því
augnamiði að meta þroska barnanna eða öðlast skilning á sálfræðilegum þáttum í
myndum þeirra var markmiðið að skoða hvernig þau túlkuðu upplifun og reynslu
sína af leikskólanum með teikningunum (Holliday o.fl., 2009). Teikningarnar voru
mikilvæg viðbótargögn við viðtölin auk þess sem þær voru mikilvægt viðfangsefni
fyrir börnin í viðtölunum.
Greining viðtalanna og teikninganna leiddi í ljós nokkur þemu sem tengdust því sem
börnin minntust með ánægju, því sem þau voru óánægð með og því sem þeim fannst
gagnlegast þegar þau byrjuðu í grunnskólanum. Viðtölin við kennarana voru greind og
kóðuð í samræmi við viðbrögð þeirra við þemum úr gögnunum frá börnunum.
niðurstöður
Minnisstæðast úr leikskólanum
Börnin rifjuðu upp og ræddu leikskóladvölina í litlum hópum og áttu fæst þeirra í
vandræðum með það. Nokkur börn sögðust í byrjun lítið muna úr leikskólanum en
þegar börnin fóru að ræða saman rifjaðist ýmislegt upp fyrir þeim. Þegar eitt barn
byrjaði að tala um eitthvað minnti það annað barn á eitthvað annað. Hér verður gerð
grein fyrir því sem börnin ræddu um sem skemmtilegast og leiðinlegast úr leikskól-
anum. Einnig verða kynnt viðhorf leikskólakennaranna til frásagna barnanna.1
Jákvæð reynsla
Til að hvetja börnin til að tala um og rifja upp jákvæða reynslu úr leikskólanum voru þau
spurð hvenær þau hefðu verið ánægð í leikskólanum, hvenær þeim leið vel, hvenær
þau voru örugg og hvað þeim hafi líkað best. Flest þeirra nefndu samskipti og leik við
önnur börn þegar þau töluðu um jákvæða reynslu úr leikskólanum. Hér eru nokkur
dæmi um það: