Félagsbréf - 01.07.1957, Qupperneq 124
122
FÉLAGSBRÉF
mennsku-millibilsástandi, sem illt er við að una. Við verðum
samt að reyna að vera þolinmóð í tuttugu til þrjátíu ár, því að
þetta lagast sennilega ekki fyllilega fyrr. Þetta meðalmennsku-
ástand er síður sök forráðamanna íslenzkra leikhúsa heldur en
leikarastéttarinnar allrar, og eru leikstjórar þar meðtaldir. Þótt
sitt hvað megi finna að vali á leikritum, þá hafa girnileg verk-
efni verið lögð fyrir íslenzka leikhúsmenn, verkefni, sem ekki
hefur tekizt að leysa sem skyldi. íslenzkir leikarar fyrtast lík-
lega við þessi ummæli og kalla þau hrópleg ósannindi. Sennilega
þykjast þeir vera allir af áhuga gerðir, en það er ekki nóg að
segjast vera það, þeir verða að sýna það í verki.
Nú er röðin komin að íslenzkum leikskáldum. Tvö verk eftir
innlenda höfunda voru á leikskrá Þjóðleikhússins síðastliðið ár,
tvö stórgölluð verk, einkum það fyrra. Það eina, sem vakti at-
hygli mína, þegar ég sá Spádóminn, voru leiktjöldin, sem mér
þótti fyrst í stað nýstárleg og óvenjuleg, en áður en sýningunni
lauk áttaði ég mig á því, að þau voru líka svikin vara. Að und-
anskildu einu allsæmilegu atriði í öðrum þætti, þá var Fyrir
kóngsins mekt engan veginn skemmtun við konungshæfi, jafnvel
þótt skotið væri inn bæði söngvum og dönsum til bragðbætis.
Þeir gerðu annars bara illt verra, þegar á allt er litið, því að
þeir eyðilögðu stíganda leiksins, sem hefði reyndar aldrei orðið
mikil, þó að þeim hefði verið sleppt, og slitu svo í sundur skást
riðuðu atriðin, að sjónleikurinn var orðinn undir lokin eins og
sundurtætt net, sem var til einskis trúandi.
Byggingu beggja þessara verka, persónusköpun höfunda og
efnistökum, er ekki fárra bóta vant. Sama mætti raunar segja
um öll leikrit núlifandi höfunda hér á landi að einum frátöld-
um, þ. e. Agnari Þórðarsyni. Áður en meira er sagt, finnst mér
rétt að taka það fram, að ég geri mun á leikritum annars vegar
og sjónleikjum hins vegar. Við lesum leikrit, en horfum á sjón-
leik. Sjónleikur er leikur settur á svið, og leikrit er því efni í
sjónleik. Leikhúsmenn taka við, þar sem leikskáld hætta. Lífið
er það hráefni, sem leikskáld vinna leikrit sín úr, en leikrit
eru hins vegar það efni, sem leikhúsmenn byggja sjónleiki úr.