Milli mála - 01.01.2011, Page 15
15
„Milli vissunnar sem ég hef um tilvist mína og innihaldsins sem ég
reyni að gæða þessa vissu er gjá sem verður aldrei brúuð. Ég verð
ævinlega útlendingur [étranger] andspænis sjálfum mér.“9
Í skáldsögunni Útlendingurinn er orðið étranger aðeins notað við
réttarhöldin þegar saksóknarinn gerir mikið úr því að Meursault
hafi drukkið kaffibolla sem húsvörður elliheimilisins bauð honum
og reykt sígarettu við kistu móður sinnar. Hann lýsir því yfir að
óskyldur maður, étranger, hafi getað boðið upp á kaffi en að sonur
hefði átt að afþakka slíkt boð við lík móður sinnar.10 Hér vísar
saksóknarinn til húsvarðarins en ekki aðalsöguhetjunnar; Meursault
er „útlendingurinn“ í verkinu, en þó ekki; það er framkoma hans
sem gerir hann framandi eða óvenjulegan í augum annarra sögu-
persóna þótt hann sé að flestu leyti afskaplega venjulegur maður.
III
Við erum nú ýmsu nær um merkingu orðsins étranger og um leið
meðvituð um að íslensk þýðing orðins er á margan hátt ófullnægj-
andi. Hefðin hefur þó skapað henni þann sess að næsta óhugsandi er
að hrófla við heiti verksins. Étranger getur þýtt „útlendingur“ en
þótt Meursault beri franskt nafn og sé því á vissan hátt útlendingur
í Alsír, sem var frönsk nýlenda frá 1830–1962, virðist það ekki vera
sá skilningur sem höfundurinn leggur í titilinn.11 Í inngangi að
enskri þýðingu verksins frá 1955 dregur höfundurinn saman efni
þess í einni setningu: „Sá sem ekki grætur við jarðarför móður
sinnar í samfélagi okkar á það á hættu að vera dæmdur til dauða.“12
Svo bætir hann við:
Ég átti einungis við að söguhetjan er dæmd vegna þess að hún tekur ekki
þátt í leiknum. Í þeim skilningi er Meursault útlendingur [étranger] í því
samfélagi sem hann býr í; hann ráfar um, á jaðrinum, í úthverfum
einkalífsins, sem er í senn einmanalegt og munúðarfullt.13
9 Sama rit, bls. 36.
10 Albert Camus, Útlendingurinn. L’Étranger, bls. 172–173.
11 Í smásögunni „Gestinum“ frá árinu 1957 lýsir Camus stöðu Frakka í Alsír nokkuð vel.
12 Albert Camus, Œuvres complètes, I, bls. 215.
13 Sama rit, bls. 215.
ÁSDÍS R. MAGNÚSDÓTTIR