Milli mála - 01.01.2011, Page 24
24
og herklæðin heiti og til hvers þau séu. Í ljós kemur að móðirin hélt
honum vísvitandi frá öllu sem tengist riddaramennsku enda hafði
hún óbeit á þeim starfa þar eð eiginmaður hennar og tveir synir
féllu fyrir vopnum. Hún leggur honum þó lífsreglurnar áður en
hann kveður, undirstrikar mikilvægi þess að spyrja fólk nafns, „því
að af nafninu þekkir maður manninn“.45 Þótt Perceval mistúlki
mörg af ráðum móður sinnar minnist hann hennar oft í orðum
sínum, svo oft að riddari sem kennir honum vopnaburð ráðleggur
honum að hætta að vitna í hana, annars muni fólk halda að hann sé
fífl; hann segir honum einnig að forðast að vera of málglaður.46 Enn
mistúlkar Perceval það sem honum er sagt, og þegir svo lengi á
næsta áfangastað að fólk heldur að hann sé mállaus og á þeim næsta
þegir hann líka eins og steinn, þrátt fyrir brennandi forvitni, þegar
undurfagran gral og blæðandi spjót ber fyrir augu hans í kastala
Fiskikonungsins. Það eru alvarleg mistök sem reynast honum
dýrkeypt. Næsta dag er hann spurður nafns og svarar rétt þótt hann
hafi fram að því ekki vitað hvert nafn hans var. Stuttu síðar gleymir
hann svo Guði og þannig líða fimm ár í þrotlausri riddaramennsku.
Á föstudaginn langa hittir hann svo einsetumann sem segir honum
frá gralnum en hvíslar líka að riddaranum nöfnum Guðs sem hann
getur gripið til ef lífið liggur við. Á 12. öld voru menntamenn ekki
á eitt sáttir um tengsl orða við það sem þau stóðu fyrir og endur-
spegluðust þær deilur í orðaskiptum um nafnhyggju og hluthyggju.
Vel má vera að Chrétien hafi kynnst þeim deilum þótt hann taki
ekki skýra afstöðu til ólíkra sjónarmiða í verki sínu. Það má þó ef
til vill heyra óminn af þeim í nafnaleitinni og sambandi nafns og
notkunar sem fylgir Perceval í gegnum þann hluta verksins sem
fjallar um hann.
Meursault og Perceval eru báðir „útlendingar“, hvor á sinn hátt.
En það er ýmislegt fleira sem þeir eiga sameiginlegt. Báðir alast
þeir upp án föður, hjá þögulli móður; Perceval yfirgefur móður sína
til að gerast riddari, Meursault setur sína móður á elliheimili vegna
þess að henni leiddist heima. Þótt Meursault viti ekki hvað móðir
hans var gömul og hafi sjaldan heimsótt hana kallar hann hana
45 Sama rit, bls. 56.
46 Sama rit, bls. 81–82.
ÚTLENDINGUR OG ÓVITI