Milli mála - 01.01.2011, Page 71
71
ekkert út á málfar að setja. Flestar athugasemdir ritdómaranna væru
byggðar á misskilningi og fáfræði. Greininni lauk svo Eiríkur með
þessum orðum:
Mér dettr sízt sú dul í hug að verk mitt sé óaðfinnanlegt. Enn það sem að
því er fundið skyldi vera á rökum stutt, en ekki á misskilningi og
vanskilningi aðfinnenda, eins og hér á sér stað í öllu sem í nokkru tilliti
má verulegt heita. Eg get ekki fengið af mér að vera að fylla blöð með
dómum merkra manna, sem mér hafa þegar borizt um Storminn, enn
bregða mundi þó dómurum mínum í brún, ef þeir sæju þá.33
Nú var illa komið fyrir Eiríki. Á sínum tíma hafði hann húðskamm-
að Matthías fyrir að gefa sjálfum sér vottorð um eigið ágæti hvað
viðvék þýðingunni á Óthelló, en nú var Eiríkur fallinn í sömu
gryfjuna. Þeir Jón og Valtýr höfðu vit á að reyna ekki að svara grein
hans, svo að eiginleg ritdeila varð aldrei úr gagnrýni þeirra á
Storminn. Sé litið fáein ár til baka til þess tíma þegar Eiríkur var að
úthúða Matthíasi, má segja að skamma stund verður hönd höggi
fegin. Shakespeare-þýðingar Matthíasar – að Óthelló meðtöldum –
njóta enn vinsælda, en villurnar, sem vissulega má þar finna, hrynja
„eins og ryð af góðum málmi“, eins og Stefán Einarsson komst svo
hnyttilega að orði.34 Þýðing Eiríks á Storminum mun nú hins vegar
flestum gleymd.
Ekki virðist árás Eiríks á Matthías hafa haft langvarandi áhrif á
hann, þótt undan sviði meðan mest gekk á. Í Söguköflum af sjálfum
mér minnist hann ekki á hana einu orði. Í bókinni er dálítill kafli
um Eirík Magnússon (bls. 239–245). Matthías drepur þar á geðríki
Eiríks og langrækni, en liggur að öðru leyti fremur gott orð til
hans. Matthías hafði líka vel efni á að sýna Eiríki vinarþel eftir allt
sem á undan var gengið. Hann stóð nefnilega að lokum uppi sem
sigurvegari. Enginn varð til að taka undir hina heiftúðugu gagnrýni
Eiríks á Matthías, og á endanum féll hún um sjálfa sig. Sá hlær best
sem síðast hlær segir máltækið, og hér átti það svo sannarlega við
um Matthías.
33 Sama blað, 27. ágúst 1886, bls. 155.
34 Stefán Einarsson, Shakespeare á Íslandi, bls. 23.
MAGNÚS FJALLDAL