Milli mála - 01.01.2011, Page 210
210
GREIFYNJAN AF TENDE
hennar. Hún tók honum vel en þó vantaði mikið upp á að hann
næði markmiði sínu. Enginn vissi af þessum áformum; hann hafði
aðeins trúað einum vina sinna fyrir þeim og þessi vinur var einnig
náinn vinur greifans af Tende. Hann fékk riddarann af Navarre til
að samþykkja að segja greifanum af Tende frá þessari ráðagerð með
það í huga að fá greifann til að leggja hönd á plóginn. Greifanum af
Tende féll vel við riddarann af Navarre, hann ræddi um hann við
eiginkonu sína, sem hann var farinn að meta að verðleikum, og fékk
hana til að gera það sem til stóð.
Prinsessan af Neufchâtel hafði þá þegar trúað henni fyrir ást
sinni á riddaranum af Navarre. Greifynjan taldi kjark í hana.
Riddarinn kom á fund greifynjunnar, hann lagði á ráðin með henni
en um leið og hann sá hana varð hann yfir sig ástfanginn af henni.
Í fyrstu lét hann ekkert uppi og gerði sér grein fyrir þeim hindrunum
sem þessar tilfinningar, ástin og metnaðurinn, settu í veg fyrir
hann; ætti hann að standast þær mætti hann ekki hitta greifynjuna
af Tende oft en í leit sinni að prinsessunni af Neufchâtel sá hann
hana daglega og þannig varð hann frávita af ást til hennar. Honum
tókst ekki að fela tilfinningar sínar algerlega fyrir henni, hún tók
eftir þeim, þær kitluðu hégómagirnd hennar og brjóst hennar fyllt-
ist af brennandi ást til riddarans.
Dag einn þegar hún sagði honum frá þeirri hamingju sem fælist
í því að ganga að eiga prinsessuna af Neufchâtel sagði hann við
hana, og horfði á hana á þann hátt að ástin skein úr augunum: „Og
haldið þér, frú, að ekki sé til sú hamingja sem ég kysi frekar en að
giftast þessari prinsessu?“ Greifynjunni af Tende var brugðið við
augnaráð og orð riddarans; hún horfði á hann á sama hátt og hann
hafði horft á hana og á milli þeirra myndaðist vandræðaleg þögn
sem sagði meira en nokkur orð. Upp frá þessu var greifynjan í
uppnámi sem firrti hana allri ró; hún fann til samviskubits yfir því
að svipta vinkonu sína tækifærinu til að njóta ástar mannsins sem
hún vildi giftast af einskærri ást, þrátt fyrir almenna vandlætingu
og þann álitshnekki sem af því hlytist.
Henni bauð við þessum svikum. Sú skömm og óhamingja sem
fylgja ástarævintýrum komu upp í huga hennar, hún sá hyldýpið
við fætur sér og einsetti sér að forðast það.