Tímarit Máls og menningar - 01.03.1951, Blaðsíða 21
HVAR STENDUR ÍSLAND?
11
hlunnfara, eða snýst öfug gegn sjálfri sér, og það af tryllingi, eða
verður eins og Þorsteinn kvað um fossinn „asni, sem upp í er hnýtt,
og erlendar þrælshendur teyma“. En sú mynd sem við höfum fyrir
augum af íslenzku þjóðfélagi eins og stendur er að nokkrir auðmenn
borgarastéttarinnar hafa tekið sér drottnunar- og einokunarvald yfir
því og reka það til einkahagnaðar fyrir sjálfa sig, með undirtökum
sem þeir liafa í flokkum sínum, bönkum, verzlun og atvinnurekstri, en
hafa samtímis bæði í hagsmunaskyni, af vantrausti á sjálfstæði Islands
og af ótta við að alþýðan verði of máttug og áhrifamikil tryggt sér
bakhjarl í erlendu auðvaldi með afsali landsréttinda, leigu herstöðva,
íhlutun um efnahagsmál og jafnvel yfirráðum yfir landinu sjálfu til
hernaðarafnota, þar til þeir sjálfir hafa gerzt svo háðir hinu erlenda
valdi og samtvinnað svo hagsmuni sína við það, að þeir þora sig hvergi
að hræra, heldur líta á það í einu og öllu sem yfirboðara sinn, sem
þeir séu skyldugir til að hlýða. í kjölfar þessarar stefnu siglir fjármála-
leg harðstjórn inn á við, einokun í verzlunarháttum, viðskiptabönn í
austur, dýrtíðin, verðhrun íslenzks gjaldeyris, skuldasöfnun erlendis,
aðþrenging atvinnulífs, bann við að reisa þak yfir höfuð sér, skerðing
lífskjara, fátækt alþýðu, allur þessi fagri gróður af íslenzk-bandarískri
samvinnu og sæti ávöxtur af því að hafa látið stela frá sér landinu. En
til að koma málum sínum fram, sem ganga í berhögg við þjóðarhags-
muni, til að réttlæta sig og afsaka í augum hennar og halda við drottn-
un sinni yfir henni, hefur þetta samfléttaða auðstéttarvald orðið að
beita málflutningi ósanninda og ætlar honum þann hluta verksins að
stinga Islendingum í poka, byrgja þá innan veggja þess brezk-ameríska
áróðurs þar sem ekki sér út úr myrkratilveru atlantshafsríkj anna, gera
íslendinga svo lágreista og dómgreindarsljóa að þeim þyki undirgefni,
harðstjórn og fátækt sem dúnn að hvíla á, eða á hinn bóginn svo
hrædda við valdhafa sína og ímyndaðan herstyrk Bandaríkjanna, að
þeir gangi fram í auðmýkt og lotningu í stað þess að rísa eins og
menn undan okinu og brjóta það af sér. Og einn dráttur í nútíðarmynd
íslands hefur þá orðið sá að heilir flokkar og stéttir sem áður höfðu
forgöngu í þjóðfrelsisbaráttu íslendinga og höfðu til að bera víðsýni,
þjóðarmetnað og hugdirfsku, hafa látið stinga sér ofan í poka, byrgja
sér með öllu þá útsýn sem þær áttu fyrrum og hafa týnt niður því máli
sem Jón Sigurðsson og samherjar hans töluðu. Fyrir utan að borgara-