Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 01.07.1962, Page 27

Tímarit Máls og menningar - 01.07.1962, Page 27
ÞOKAN berginu. Hún horfði út í ljósgráa þokuna. Það hélt áfram að vera þögn. Svo sneri hún sér við og settist við hlið hans. „Viltu ekki tala við mig?“ sagði hún. „Ætlarðu ekki að segja neitt við mig? Þú varst ekki orðinn svona í fyrrakvöld, á ballinu, þú skemmtir þér á ballinu, var það ekki? Þú gerðir það, ég sá það. Ég var farin að vona að þetta væri hætt að koma yfir þig. Svei mér þá, ég var næstum farin að halda það.“ Hann þagði. Hún horfði í gaupnir sér, sléttaði með löngum sterklegum höndunum úr fellingum á brekáninu. Þegar honum þótti þögnin of löng og óviðkunnanleg sagði hann: „Þú þarft ekki að vera með þessi látalæti. Þú veizt að ég vil vera einn, ég vil að við hættum að vera saman, ég er búinn að út- skýra það fyrir þér, þú átt að skilja það.“ „Ég hélt kannski að þú mundir vilja tala við mig. Stundum höfum við getað talað saman þótt þú værir niðurdreginn eins og núna. Stundum hefur þér þótt betra að tala við einhvern.“ „Bráðum fer ég burt,“ sagði hann. „Ég get komið aftur,“ sagði hún. „Nei komdu ekki aftur. Það er bezt þú komir ekki aftur, þú skilur það.“ Hún fór. Hvarf aftur í þokuna. Móðir hans' sem hafði verið að bjástra í eldhúsinu hafði kallað til stúlkunnar um leið og hún var að fara og boðið henni upp á kaffi. „Nei takk, ekki núna,“ hafði hann heyrt hana segja. „Ég var að setja upp ketilinn,“ sagði móðirin. „Þú hleypur ekki í burtu án þess að þiggja eitthvað.“ „Ekki núna,“ hafði stúlkan sagt. „Einhvern tíma seinna.“ Svo hafði hún flýtt sér fram ganginn. Hann velti því fyrir sér hvort hún mundi hætta að koma. Hún hafði alltaf komið aftur, auðmjúk og sveigjanleg, og hann hafði tekið á móti henni eins og ekkert hefði gerzt, eins og hún væri ennþá sú sama. Hann spurði líka sjálf- an sig hvort hann gæti skipað henni burt ef hún kæmi, hvort hann léti verða af því að vera sjálfum sér samkvæmur þótt hann þráði hana í einverunni. Stundum fannst honum hún fyrirlitleg og skopleg, því hvers vegna lét hún troða á sér og hélt áfram að flaðra? Atti hún ekkert stolt? Eða átti hún ef til vill stolt sem hann þekkti ekki; sem hún átti ein og enginn vissi um ? Eitthvað sem jafngilti stolti? 217

x

Tímarit Máls og menningar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.