Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Side 17
Umhverfismál
þar sem launin voru aðeins einn tíundi þess, sem hann gat fengið vestra.
Samt áleit hann sig í reynd eins vel launaðan hér heima á Fróni, af því að
hann taldi hið tiltölulega óspillta umhverfi til raunverulegra verðmæta.
Ég nefndi nú orðið óspillt umhverji. En hvað er þá spillt umhverfi - eða
öllu heldur: Hvað hefir spillzt? Einkanlega þetta, sem við í daglegu tali nefn-
um jafnvœgi náttúrunnar. Þetta hugtak á að sjálfsögðu við hina lifandi nátt-
úru. En hvað er þá þetta jafnvægi? Hér þarf ofurlítinn formála.
Okkur hœttir við að líta á hið lifandi umhverfi sem við höfum daglega
fyrir augum, sem eitthvað fast og óumbreytanlegt. Ég skal aðeins nefna eitt
íslenzkt dæmi í tengslum við starf mitt:
Af því að við horfum á okkar dögum á ísland nakið - en ekki vaxið skógi
- að mestum hluta, finnst mönnum, að svona hljóti það alltaf að hafa verið.
Fyrir því verða menn undrandi, er þeir koma í íslenzkan skóg, ég tala nú
ekki um, ef trén eru af erlendu kyni. Við vitum þó eftir ýmsum leiðum, að
fyrir þúsund árum þakti skógur 20-25 þús. ferkílómetra, en í dag aðeins um
eitt þúsund. Á sama hátt finnst okkur í fljótu bragði, að það land, sem þakið
er með ýmiss konar öðrum jurtagróðri í dag, hljóti að hafa litið líkt út og
nú frá ómunatíð, enda þótt við finnum á venjulegum íslenzkum beitilöndum
aðeins liluta þess tegundafjölda, sem þar gœti vaxið. Hér gætir áhrifa bú-
setunnar. Álagið á lífkerfið hefir verið þyngra en það fengi risið undir og
afleiðingin er einföldun þess: Færri tegundir og minni uppskera en gæti
verið. Afdrifaríkast var, að efstu hæðinni í gróðursamfélaginu - skóginum -
var eytt. Við það gerbreyttust neðri hæðirnar: Grösin, hálfgrösin, mosarnir.
Hér höfum við dæmi um rányrkju: Maðurinn hefir gengið á höfuðstól nátt-
úrunnar í stað þess, að hann má aldrei eyða nema vöxtunum af þeim höfuð-
stóli.
En þótt ekki gæti eyðslu af völdum rányrkju, er allt á ferð og flugi í líf-
ríkinu, þó að okkur sjáist yfir það. Þar er einatt verið að brjóta niður og
byggja upp. Þar sem náttúran getur farið sínu fram og þar sem mennirnir
eyða aðeins vöxtunum af höfuðstóli hennar, vega salt niðurrif og uppbygg-
ing. Það er jafnvœgi náttúrunnar. Þar sem maðurinn ástundar svokallaða
skynsamlega nýtingu náttúrugæða - skv. skýrgreiningu náttúruverndar —
gætir hann þess að raska ekki þessu jafnvægi. Þetta er það, sem á gömlu,
góðu máli heitir að láta stjórnast af búhyggindum.
Dæmi um þess háttar skynsamlega nýtingu náttúrugæða, sem ég þekki vel
til sjálfur, er skógabúskapur Norðurlanda - og raunar Norður-Evrópu. í
þessum löndum gengur löggjafinn út frá þvi, að skógurinn sé ekki eign einn-
7