Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Page 32
Tímarit Máls og menningar
En Jósep heyrði hana hvorki né sá. Hann skundaði yfir til blindingjans
og kvennana og fékk sér sæti. Og nú fyrst heyrði ég og sá að hann kunni
að tala. Ómur málsins og rokur af hlátri bárust til okkar og vöktu mér for-
vitni.
Um hvað er maðurinn að tala? sagði ég við Ragnheiði.
Kannski hann kræki sér í hana Steinku, svaraði hún. — Ó að hann krækti
sér nú í hana Steinku. Bara hann drepi hana ekki af sér. Þetta er svoddan
blessað guðs lamb, hún Steinunn mín elskan.
Ekki drap hann þig af sér Ragna mín, sagði Þórey.
Nei, það var ég sem drap hann. Hún Steinka mín er ekki ég. Hana vantar
hrafnsblóðið í æðarnar.
Alltaf er hún Ragna sjálfri sér lík Hákon. Það er ég viss um, að enginn
henni kjaftforari fyndist innan veggja þessa húss, þó leitað væri með logandi
blysi.
Hlustaðu ekki á hana Hákon. Hún er heilög. Hún er ein þeirra sem gert
hafa biblíuna að þrætubókarskruddu. — Sjáðu. Nú er hann farinn að káfa á
henni. Heldurðu ekki hann hafi það Eyja mín? Mikið vildi ég nú hann hefði
það.
0 haltu þér saman Ragnheiður.
Heyrðu mig Þórey mín, sagði Ragnheiður. Varst þú aldrei Kanamella?
Þú ert djöfulsins brennikubbur Ragnheiður. Ég ætti að skammast mín fyrir
að umbera þig.
Mikið skelfing langaði mig til að vera Kanamella, hélt Ragnheiður áfram,
en því var nú fjandans miður, að ég hafði hvorki tíma eða tækifæri til þess.
— Og nú er maður eins og hornsíli fjarað uppi í polli og búinn að missa af
allri syndinni. Það er mikið hvað guð almáttugur getur tekið uppá að bjóða
einni vesalings konu. — Ætli þær fari ekki bráðum að hringja mann í kaffið?
— Upp, upp, þú heilaga sál Þórey Jónsdóttir.
Við bröltum á fætur. Stararnir komu fljúgandi og settust á blettinn milli
húsálmanna.
3
Ég er farinn að kynnast slangri af fólkinu hérna. Maðurinn með hausinn
eins og öxina Rimmugýgi, er einstakt ljúfmenni. Ég hélt hann væri morðingi.
Anzi finnst mér það skrítið, að maður með svona haus, skuli ekki vera mis-
indismaður. — Og konan með Fótbítsandlitið virðist ekkert annað en mann-
kærleikurinn sjálfur. Dæmalaust er ég glámskyggn á fólk.
22