Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Page 51
Davíð Stefánsson
Bréf til Theodóru Thoroddsen
(1917-1921)
Fagraskógi 13. 9. ’17.
Sælar og blessaðar frú Thoroddsen.
Það er bæði synd og skömm að hafa ekki skrifað yður fyrir langa löngu,
því þér ættuð skilið að ég sendi yður klyfjaðan hest með hverjum pósti. í
annarri klyfjinni ættu að vera góð bréf, full af þakklæti til yðar, en hinni
ættu að vera ljóð, sem væru samboðin yður, besta þuluskáldinu á íslandi.
En ég hefi verið undra latur í sumar. Þó hafa komið þeir dagar að ég hefi
barist grimmilega við heimskuna í mér en hefur þó orðið allt of lítið ágengt.
Undir áhrifum frá henni hefi ég sungið nokkra Davíðssálma sem taka yfir
ein tvö þrjú blöð í hinni helgu bók minni þegar hún kemur. Það er allt
blessað og gott. Mér hefur liðið allt of vel í sumar í samanburði við marga
aðra. Kjörum mannanna er misskipt og þó eiga sennilega allir sína gleðidaga
og sorgarnætur. Ég þekki konu sem er svo mikil hetja að hún ber sig betur
með holundar sár - en ég með smáskurfu. Þér þekkið hana. Þulan sem þér
senduð mér er snilldarverk - og bestu þakkir fyrir hana. Hún má ekki vera
lokaþáttur yðar, það væri synd. Þuluhátturinn hefur eitthvert undravald yfir
mér. Ég dáist að honum og dýrka hann.
Bið að heilsa Láru.
Sennilega kem ég ekki suður í haust. Það eru ýmsar bjargir bannaðar.
Býst við að lesa heima minnsta kosti framan af, hvað sem svo verður. Ég
kvíði fyrir vetrinum, hér út á hjara veraldar. En allt fer það einhvern veginn.
Ef ég verð hraustur og ekki allt of latur - hef ég hug á að gjöra mikið í
vetur. Ég byggi mér loftkastala í miklum móð - en þeir hrynja jafnóðum -.
Ekkert hefi ég sent Dr. eða öllu réttara Prófessor Ágústi B. og býst við að
hann sé ekki hýr undir niðri í minn garð. En hvað um það. Ég ætla að sýna
hans hátign að ég er ekkert Iðunnar né Ágústar hirðskáld.
Svo kveð ég yður í þetta sinni, frú Thoroddsen, með þakklæti fyrir allt
og allt. Ljóðin sem ég sendi yður eru sum meingölluð og varla ferða fær.
GuSs ',i5i Davíð Stefánsson.
41