Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Page 104
Timarit Máls og menningar
En það er ef til vill fleira en stafsetningin, sem vert væri að athuga, þegar
móðurmálsnámið er tekið til endurskoðunar. Sumt er það í íslenskum mál-
fræðibókum, sem orkar tvímælis, svo ekki sé kveðið fastar að orði. Sem lítið
dæmi vil ég taka tíðbeygingu sagna, til dæmis það sem kallað er framtíð og
þáframtíð. Fáir held ég taki svo til orða: „Ég mun gera þetta í kvöld“, eða
„Ég mun haja gert það á morgun.“ Mig grunar, þótt ég kunni ekkert í latínu
að íslensk málfræði hafi verið færð í stakk latneskrar málfræði, stakk, sem
ekki fór henni alls kostar vel. Alkunna er, hve mörgum íslenskum blaðamönn-
um og jafnvel starfsmönnum útvarps sumum hverjum er tamt að nota sam-
settar tíðir í litlu hófi. Þetta kenna margir enskum áhrifum, og er það eflaust
rétt. En gæti ekki verið, að einstrengingsleg málfræðikennsla ætti þar líka
ofurlitla sök. Það getur varla talist heppilegt að kenna málfræðibeygingar í
íslenskutíma, sem síðan eru taldar og eru vissulega óhafandi í ræðu og riti.
Ég játa á mig þá sök að hafa alltof lengi þrætt um of þennan alfaraveg í
íslenskukennslu. En það gleður mig, að ég hef orðið þess var, að margir
yngri kennarar hafa nú reynt að ryðja þar nýjar brautir. Ég held, að við
þessir eldri gætum best afplánað okkar vanrækslusyndir með því að styðja
þá viðleitni.
Lokið 9. febrúar 1974.
94