Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Blaðsíða 82
Tímarit Máls og menningar
hafði stúlkan drifið sig ótrúlega oft í hjónabönd með mönnum frá ótal
fyrrverandi nýlendum, eins og brúðkaupsmyndirnar sönnuðu og hinn
súri bíldudalssvipur á andliti foreldranna.
Sá frá Filipseyjum var síðasta ástin sem hvarf, sagði stúlkan og fletti
myndum af fimm hjónaböndum og foreldrum með stíft bak, eins og
ættarstólpinn hefði verið rekinn upp um óæðri endann á þeim, og reist
höfuð sem var auðsæilega löngu hætt að hugsa.
Nú vantar mig línu út í bæ, sagði stúlkan og henti sinni ljósmynduðu
ævi og ættarskrá í skúffuna á dýrgripahauginn. Eg fór niður, gaf henni
línu og sótti um leið mjólk handa barninu. Þegar ég sneri aftur strunsaði
hin ljóshærða, hávaxna og ættstóra stúlka að útidyrunum.
Eg þoli ekki eskimóa, sagði hún. Eg varð móðguð og brjáluð þegar
mógulu mennirnir mínir spurðu hvort við værum eskimóar.
Þú ert þá eins og daninn sem var hér um daginn, sagði ég.
Sjá djöfuls bauni og drulludeli, sagði stúlkan. Heldurðu ekki að ég
bjóði honum inn. Síðan svíkur hann mig í tryggðum þegar við erum
nýtrúlofuð og ákveður að fara til kerlingarinnar sinnar. En í nótt er ég
ástfangin í alvöru, bætti ættstóra stúlkan við og reif upp dyrnar og
ruddist út í rok og byl að leigubíl, rammíslensk á svip og albúin að
leggjast af eldmóði undir hvern sem er og gefa sig draumórum á vald
sökum heilagrar einfeldni.
Undir morgun rís hún eflaust úr rúminu, kvartandi og kveinandi og
sótbölvar svikum, beygð um stund af vonbrigðum yfir valdinu sem hún
lagðist undir.
En undir kvöld er stúlkan aftur haldin ódrepandi draumórum og
bjartsýni. Hún er heilög og einföld og afneitar reynslunni. Hún böðlast í
ástinni af íslenskri atorku en lítilli tilfinningu, og þess vegna er hún og
afkomendur hennar ævinlega örlítið vansælir en bestu grey.
456