Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Page 28
I
Tímarit Máls og menningar
vinna úr þeim. Hefðbundið skólanám var lagt til hliðar á meðan. Hver
hópur bjó til veggmynd, þar sem teikningar og texti útskýrðu viðfangsefnið.
Sýningu var síðan komið fyrir í anddyri skólans og var hún opin almenningi
síðasta kvöld vinnuvikunnar. Nemendur stóðu einnig fyrir ýmsum atriðum
þar sem bæði þeir og gestirnir voru virkir þátttakendur. Sýning sem þessi er
nú árlegur viðburður og er sýndur mikill áhugi af bæjarbúum. Einn
hópurinn vann t. d. verkefni um „þrjú gömul sveitabýli". Þar var könnuð
saga þriggja bóndabæja í nágrenni Kabelvág sem höfðu orðið stofninn að
þremur þorpum. Annar hópur vann verkefni um „íshafsþorskinn". Nem-
endur gerðu kort yfir göngur stofnsins og helstu fiskimið. Einnig skrifuðu
þeir greinar um hrygningu þorsksins og hvað umhverfi og aðstæður hefðu
mikil áhrif á viðkomu stofnsins. Ymis fleiri verkefni voru unnin sem öll
vörðuðu tengsl fólksins við nánasta umhverfi sitt eða lýstu staðháttum og
vinnubrögðum á ýmsum tímum.
Lofoten-tilraunin fékk umtalsverða fyrirgreiðslu yfirvalda á tímabilinu
1972 — 1979. Auk A. Hogmo og K. J. Solstad, sem voru í forsvari, voru tveir
aðstoðarmenn í hálfu starfi á tímabilinu. Kennararnir sem tóku þátt í
tilrauninni höfðu minni kennsluskyldu en ella.
Spyrja má hvort þessi tilraun hafi náð tilætluðum árangri, þ. e. að gera
skólann raunhæfari fyrir það samfélag sem hann er hluti af. Lokaskýrsla um
Lofoten-dlraunina (Hogmo, Solstad og Tiller 1981) gefur ekki tæmandi
svar við þeirri spurningu, en veitir góða innsýn í vinnubrögðin sem þátttak-
endur nefndu „gagnvirka skipulagningu“.
HEIMILDIR:
Hogmo, A. og Solstad, K. J. “The Lofoten Project: Towards a Relevant Education”.
Scandinavian Journal of Educational Research, Vol. 22, no. 1., 1978.
Hogmo, A., Solstad, K. J. og Tiller, T. Skolen og den lokale utfordring. Tromso,
1981.
Monsen, L. Lokal læreplanutvikling. Symposiet „Makt och kontroll över láro-
planer“. Urö, 7.-9. júní, 1982.
Solstad, K. J. Riksskole i utkantstrok. Oslo/Tromso: Universitetsforlaget, 1978.
Pétrún Pétursdóttir nemur mannfræði við Háskóla íslands.
378