Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Side 33
Tilraunamenntaskóli í Urbana
Fólk verður að búa yfir ákveðinni grundvallarþekkingu á mörgum sviðum
þegar það kemur í háskóla, og menntaskólar og fjölbrautaskólar láta
stjórnast af því. Þar hlýtur að vera takmarkað svigrúm til tilraunastarfs.
Þó er víða um vesturlönd verið að gera tilraunir með framhaldsskóla ekki
síður en grunnskóla, og hér verður sagt frá einni sem þótti takast vel þótt
henni væri hætt að sjö árum liðnum. Hún var gerð í Urbana, 40 þúsund
manna borg í Illinois í Bandaríkjunum, og eitt af því sem gerði hana
sérkennilega var að nemendur tilraunaskólans voru eðlilegur þverskurður
ungs fólks í borginni hvað námsgetu áhrærði. Þeim leið illa í venjulegum
skólum, skrópuðu reglulega og létu illa að stjórn, ekki vegna þess að þeir
ættu bágt með að fylgjast með í náminu heldur af því að þeim fannst þeir
ekkert gagn hafa af skólanum. Skipulag skóla — ekki síst menntaskóla — er
að jafnaði svo ósveigjanlegt að einstaklingar geta þar engu breytt, eina
undankomuleið hinna uppreisnargjörnu er flótti.
Arið 1972 fannst skólayfirvöldum í Urbana kveða svo rammt að
óánægjunni að þau ákváðu að gefa þessum ungmennum kost á annars konar
námstilhögun en menntaskólarnir buðu upp á, og vorið 1973 var tilrauna-
skólinn EDUCATION II (skammstafað ED II) formlega stofnaður með 25
nemendum. Þessi fyrsti hópur var sendur í skólann af skólasálfræðingum og
öðrum ráðgjöfum en eftir það sóttu flestir um skólavist á venjulegan hátt.
Nemendur tóku frá upphafi virkan þátt í að móta skólastefnuna og völdu
m. a. kennara sína sjálfir úr hópi umsækjenda. Réð þá miklu um valið hvort
nemendum fannst líklegt að umsækjandinn gæti vakið áhuga þeirra á
náminu, því starf kennara við ED II var alla tíð meira í ætt við leiðsögn en
venjulega kennslu.
Þess ber að geta strax að skólinn fékk ekki meira fé til ráðstöfunar en aðrir
skólar, upphæðin fór eftir fjölda nemenda á hverjum tíma. Húsnæði skólans
var bágborið, hann flutti oft, og þegar Ólafur Proppé, höfundur skýrslunn-
ar sem frásögn þessi er reist á, gerði athugun sína árið 1978 var skólinn í
gömlu vöruhúsi. Miklu þótti þó varða að hann skyldi ekki vera í
hefðbundnu skólahúsi.
ED II átti samkvæmt yfirlýsingu kennara og nemenda ekki eingöngu að
sinna menntunarþörfum nemenda heldur félagsþörf þeirra líka. Reynt var
að skapa fjölbreytt umhverfi sem hentaði ólíkum einstaklingum og nota sér
sem flesta möguleika sem skólahverfið bauð upp á til að læra. Skólinn átti að
vera partur af samfélagi manna en ekki einangruð stofnun. Þó áttu nemend-
ur að geta tekið þaðan lokapróf með sömu réttindum og úr venjulegum
framhaldsskóla, hafa sambærilega grundvallarþekkingu. Munurinn á ED II
og venjulega skólanum lá í því hvernig nemendur öfluðu sér þeirrar
þekkingar.
383