Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Page 41
Það er líka ýmislegt að gerast hér heima — þegar vel viðrar
Kennari í öðrum kaupstaðarskóla skýrði viðhorf sín og ástæður breytinga
með svofelldum orðum:
Eg hafði komist að þeirri niðurstöðu að skólinn væri ekki í tengslum
við raunveruleikann . . . Kannski get ég sagt að meginástæðan hafi
verið mannúðarsjónarmið . . . Ég vil líta á þetta sem lítið skref —
tilraun — í þá átt að gera skólalífið innihaldsríkara og bærilegra.
Kennari við skóla í Reykjavík komst svo að orði:
Við vildum með þessum breytingum reyna að koma til móts við
einstaklingsþarfir barnanna — blanda saman fólki með ólíkar þarfir
og getu.
Og annar kennari tók enn dýpra í árinni:
Mér fannst bagalegt að geta ekki sinnt einstaklingsþörfum. — Það er
ekki hægt í hefðbundinni bekkjarkennslu.4
Þessi svör eru um margt dæmigerð. Einkum koma síðastnefndu viðhorfin
oft fram. Við getum í gamni og alvöru kallað þau „uppeldisheimspekilega
einstaklingshyggju". Umbótasinnaðir kennarar gagnrýna einmitt
hefðbundna skólann öðru fremur fyrir að virða nánast að vettugi mun á
börnum og unglingum sem einstaklingum.
Þessi sjónarmið eru vissulega umhugsunarverð. Hversu miklu skiptir
okkur að hver einstaklingur er í raun einstæður — manneskja sem um svo
margt á engan sinn líka. Einstaklingarnir eru ólíkir að útliti. Líkamleg færni
þeirra er misjöfn. Hið sama gildir um minni, skilning, námshæfileika og
hæfni til að blanda geði við aðra. Það er munur á listrænum hæfileikum
þeirra. Tilfinningar og lunderni er ekki með sama móti, hvað þá heldur
áhugi, viðhorf, skoðanir eða siðgæðishugmyndir. Hver manneskja er flókið
samspil þessara þátta og margir eru þeirrar skoðunar að kennarar hafi til
skamms tíma einkum gefið sig meðvitað að því að rækta suma þeirra. Og
spurningin er áleitin: „Að hve miklu leyti er leitast við að steypa alla í sama
mótið og að hvaða marki ber að stuðla að þroska þess besta í fari hvers og
eins?“
Hvert svo sem svarið verður við þessari spurningu er sú viðleitni áberandi
í sveigjanlegu skólastarfi að miða öðru fremur við þarfir, áhuga og getu
hvers og eins — kennslan er einstaklingsbundin.
Þetta viðhorf endurspeglast m. a. í því að í opna skólanum fellur kennsla í
391