Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Blaðsíða 84
Thor Vilhjálmsson
Upphafning
Ungu hjónin sátu við langt borð hvort fyrir sínum endanum einsog
þau hefðu verið gift í þrjátíu ár og þyrftu ekki að ná saman lengur,
væru hætt að reyna.
A veggjunum í þessum kastalasal geispuðu hausar af ljónum,
svörtum pardusketti, og mikið hyrnd naut fyrir ofan góbelínvefnað-
inn dýra, fjölskyldumálverkin voru á endaveggnum bak við konuna:
allir með eins svip konur og karlar; mikið var gott að snúa baki í
þessa ættgöfugu hjörð, og hafa sína sál í friði fyrir hinum aristókrat-
íska sljóleika þessara andlita, sem tengdu öld við öld, í tómleika
sínum og hroka.
Allt gerist seinlega. Hendur hennar. Hún sá hönd sína speglast í
gljáandi borðplötunni; sem var dökkbrún. Hún var svo heilluð af
þessari sýn: þessi hönd sem speglast þarna, grönn; hún horfir ekki á
sjálfa höndina heldur speglun hennar. Ljósið skein skært á höndina,
og baðaði hana. Hún horfði á speglun handarinnar. Langt í burtu
þessi ungi maður. Maðurinn hennar. Ætt hans á bakvið hann hafði
afnumið andlit hans.
Hann færðist enn fjær, stóll hans borinn hratt burt svo hann varð
örsmár fyrir órafjörrun endanum á dökkum gljáandi renningi.
Það var einsog mjótt síki um kyrra nótt. Sem speglaði bara eina
hönd.
Þína hönd.
Þá fór ég að gráta.
Eg grét og grét, og vissi ekki af hverju; svo þá grét ég bara ennþá
meira út af því að vita ekki hversvegna. Það var svo ægilegt að muna
ekki eftir neinu til að gráta út af. Muna ekki eftir neinu sem var nógu
mikið mitt til að ég gæti grátið út af því.
Þá reis þessi ókunni maður fyrir enda borðsins upp; og kom mér
allt í einu aftur við, því hann var svo sætur að hugga mig. Svo var
komið fleira fólk. Pabbi hans og mamma, og frænka hans með stóru
tennurnar sem leyndu því að hún hefði neðri vör, þau voru komin;
\
434