Tímarit Máls og menningar - 01.09.1987, Blaðsíða 13
Jón Proppé
Heimur tragedíunnar og tíðar-
andi nútímans
ARTHUR: Tragedían er mikil og sterk hefð, í hana
má jafnvel fanga sjálfan raunveruleik-
ann.
Slavomir Mrozeck í Tango
I
í Brennu Njáls Sögu segir að Höskuldur Hvítanessgoði hafi verið mörgum harm-
dauði. Hér virðist átt við annað og meira en það eitt að mörgum hafi þótt miður
er Höskuldurféll. Flest dauðsföll vekja harm og söknuð, a.m.k. meðættingjum
hins látna, en harmdauða Höskulds má greina frá öðrum. Hann var mikil-
menni, réttlátur og göfugur svo honum var jafnvel líkt við Baldur hinn góða.
Hann féll óverðskuldað fyrir vopnum vina sinna og dauði hans var tragískur,
ekki síður en dauði Hamlets eða Agamemnons. Persónuleiki Höskulds og að-
stæðurnar sem sagan segir hafa leitt til vígsins hefja hann upp yfir samtímamenn
sína svo lesandanum skilst að meira er í húfi en líf og dauði eins manns.
Brennu Njáls Saga hefur öll yfir sér tragískan blæ. Hún segir frá því hvernig
samfélag frjálsra manna umhverfist af blóðhefndum, afbrýði og valdafíkn. Sak-
lausir menn eru drepnir og réttlátir menn fremja ódæðisverk. Engum er lengur
sjálfrátt heldur er eins og allir láti reka viljalaust fyrir straumi ógæfunnar. Eng-
inn virðist fær um að rísa gegn atburðarásinni: jafnvel þeir sem reyna að standa
utan við vígaferlin eða stöðva þau — Höskuldur, Njáll, Flosi — eru dregnir inní
hringiðuna.
Brennu Njáls Saga er tragískt verk, en það kann að vefjast fyrir okkur að á-
kvarða í hverju hið tragíska er fólgið öðru fremur. Er það saga Gunnars sem er
tragedían, eða saga Njálssona, Flosa, eða Njáls? Hvernig svörum við slíkri
spurningu og hvaða forsendur getum við lagt til grundvallar svarinu?
Hegel sagði að það væri tragískt, í fyllstu merkingu þess orðs, hvað við förum af
miklu gáleysi með orðið Tragedía. Þetta er jafnsatt núna og það var um daga
Hegels. Nú orðið heitir allt tragískt eða hörmulegt sem miður fer.
275