Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Blaðsíða 66
Ólafur Gunnarsson
Harpa Harpa Sól
Eins og allir vita eru járnsmiðir ákaflega nærsýnir. Þeir eru kolbika-
svartir og hafa sex fætur og allt sem sagt er um þá í dýrafræðibókun-
um er plat nema þetta: Það er ógæfumerki að drepa þá.
Höfuðborg járnsmiðanna heitir skrýtnu en fallegu nafni, hún heitir:
Harpa Harpa Sól, og hana er að finna í gömlum þvottabala rétt ofan
við Reykjavík, austan megin við Rauðavatn, í gamla greniskóginum.
Járnsmiðir halda að Rauðavatn sé stærsta vatn í heimi og handan
við það sé alls ekki neitt. Þeir reka sinn háskóla og í heimi járnsmið-
anna er ekkert embætti æðra því að vera Rauðavatnsfræðingur, en
slíkt embættispróf fá þeir eingöngu eftir langt og strangt nám. Það
er starfsvettvangur Rauðavatnsfræðinga að fara í ferðalag niður að
Rauðavatni og taka úr því sýni með því að leggja krækiberjafræ frá
því árinu áður í bleyti. Síðan reiða þeir fræin heim á köngulóm og
setja þau í rannsókn. Þegar heim er komið horfa þeir á sýnin og
segja, ákaflega merkilegt, ég tel að Rauðavatn sé að þenjast út með
óskaplegum hraða. Eg tel að það þenjist út sem svarar tíu járnsmiða-
árum á ári. Járnsmiðaár er sú vegalengd sem járnsmiður kæmist á ári
ef hann hlypi stöðugt í beina stefnu. Járnsmiðir þekkja ekkert hrað-
skreiðara en sjálfa sig.
- Ég held að um ranga ályktun sé að ræða, segir þá kannski annar
Rauðavatnsfræðingurinn, ég tel að Rauðavatn sé að dragast saman,
jafnt og þétt, en hvort hægt sé að miða við önnur eins býsn og
járnsmiðaár, það tel ég tæpast.
- Ja, það er nú það, humm, segja þeir svo báðir tveir og tvístíga á
fótunum sínum sex og rýna hvor framan í annan til að gá hvort þeir
þekkjast en það er hreinasta heimska því þeir eru allir eins.
Enn sem komið er hefur engin ákveðin niðurstaða fengist úr
Rauðavatnsrannsóknum.
Einu sinni villtist einn nýútskrifaður Rauðavatnsfræðingurinn af
leið, hann hafði tíu kóngulær með sér til burðar, þeir höfðu lagt af
56