Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Page 99
Litleysid
„Nei!“ mótmælti hún, en leit á þá; fjarri geislum sólarinnar voru
þeir mattir eins og hinir steinarnir; og þá fyrst sagði hún: „Fallegt!“
Nótt skall á, sú fyrsta sem ég eyddi ekki í faðmlögum við stein,
og þess vegna virtist hún mér kannski svo grimmdarlega stutt. Ljós-
ið hótaði að þurrka Ayl út á hverri stundu, að draga tilveru hennar í
efa, en myrkrið fullvissaði mig um að hún væri þarna.
Dagur reis á ný og litaði Jörðina gráa; og ég skimaði um og sá
hana ekki. Eg hrópaði mállaus: „Ayl! Af hverju hefurðu hlaupist á
brott?“ En hún var fyrir framan mig og var að leita að mér líka; hún
sá mig ekki og kallaði þögult: „Qfwfq! Hvar ertu?“ Loks myrkvað-
ist sjónin, og þegar við rýndum í þykka birtuna þekktum við aftur
útlínur augnabrúna, olnboga, mjaðma.
Nú langaði mig að hella gjöfum yfir Ayl, en mér fannst ekkert
sæma henni. Eg leitaði að öllu sem á einhvern hátt skar sig frá einlitu
yfirborði veraldarinnar, öllu sem var markað doppu, bletti. En ég
neyddist fljótt til að horfast í augu við að ég og Ayl höfðum ólíkan
smekk, ef ekki gjörsamlega andstæðan: ég leitaði að nýjum heimi,
handan fölrar skímunnar sem gleypti allt, ég rannsakaði hvert einasta
teikn, hverja rifu (ef satt skal segja var eitthvað byrjað að breytast: á
vissum stöðum var eins og litleysið væri fleygað margvíslegum glömp-
um); á hinn bóginn var Ayl hamingjusamur íbúi í kyrrðinni sem
ríkir þar sem öll bylgjuhreyfing er útilokuð; í hennar augum var allt
sem virtist líklegt til að brjóta upp hið algjöra sjónræna hlutleysi
eins og gróf feilnóta; fyrir henni voru hlutirnir fyrst fallegir þegar
gráminn hafði sneytt þá minnstu löngun til annars en að vera gráir.
Hvernig gátum við skilið hvort annað? Ekkert í heiminum sem
við lifðum í gat tjáð tilfinningarnar sem við bárum hvort til annars,
en meðan ég var sem óður að kreista áður óþekkt tilbrigði fram í
hlutunum, vildi hún þurrka allt út í litleysi sem náði út fyrir mögu-
leika efnisins.
Loftsteinn fór um himininn, halann bar við Sólu; fljótandi og log-
andi hjúpurinn virkaði augnablik eins og sía á sólargeislana, og allt í
einu var veröldin böðuð birtu sem aldrei hafði sést áður. Purpura-
litar gjár göptu við rætur appelsínugulra bjarga, og fjólubláar hendur
mínar bentu á logandi grænan loftsteininn á meðan hugsun sem ég
átti engin orð yfir ennþá reyndi að brjótast úr hálsi mínum:
89