Tímarit Máls og menningar - 01.09.1989, Síða 14
Tímarit Máls og menningar
með helstu hugtök, þótt slík undirbygging þurfi oft ekki að leggja undir sig
ýkja stóran hluta efnisins.
Halldór bregst við gagnrýni minni á þessa leið: „Skilgreiningatrú hans sýnist
haldast í hendur við vantrú hans á frásögn og fróðleik af empirísku tagi. Frem-
ur en að skrifa „menningarbylting = bylting menningar" fannst mér skipta
máli að segja í hverju byltingin var fólgin.“ Ekki veit ég hvort þetta er tilraun
til að segja einhvers konar brandara; skelfing finnst mér hann þá tilþrifalítill.
Skilgreining er ekki samasemmerki eða klifun; um það ætla ég ekki að fjölyrða.
Halldór heldur áfram: „Frásögn er iðulega fróðlegri en skilgreining, hvað sem
öðru líður“ (193). Vitanlega. Gott er að bókmenntafræðingar kunni að segja frá
viðfangsefnum sínum á áhugaverðan hátt. En svar mitt liggur beint við: Skil-
greining er iðulega fróðlegri en frásögn, hvað sem öðru líður. En það sem
meira máli skiptir er að skilgreiningar geta vel verið liður í mikilvægri frásögn.
Jafnframt birtast skilgreiningar iðulega sem tengiliðir almennra kenninga og
þeirrar textagreiningar sem ráðist er í. Þetta sést til dæmis á því hvernig Hall-
dór innleiðir karnival-hugtak Bakhtins í greiningu sína á Bréfi til Láru (Loks-
ins, bls. 114-118). Hinsvegar fer fremur lítið fyrir textagreiningu í bók Halldórs,
m.a.s. hvað varðar Vefarann sem er þó „útgangspunktur“ rannsóknanna.
Ábrif er eitt þeirra hugtaka sem blómstruðu í bókmenntafræði 19. aldar, oft-
ar en ekki í samlagi með ævisagna-aðferðum. Mikið kapp var lagt á að grafast
fyrir um ætlun höfundarins þegar hann samdi tiltekið verk; vitnisburð um það
má stundum finna í yfirlýsingum eða vangaveltum höfundanna sjálfra, t.d. í
dagbókum. Einna hnýsilegastar þóttu vísbendingar um hvaða verk annarra
höfunda hefðu verið höfundi ofarlega í huga er hann samdi bókina. Og þá
hófst leitin að „áhrifum" þeim sem höfundurinn varð fyrir. Ferill höfundarins
gat jafnvel að allmiklu leyti orðið áhrifa-þráður sem hann las sig eftir.
A þessari öld hafa vaknað ýmsar efasemdir um slíkar áhrifa-rannsóknir sem
og um áreiðanleika þess vitnisburðar sem kominn er frá höfundinum sjálfum.
Það er til nokkuð sem heitir „ótti við áhrif“ og taka verður tillit til, einkum frá
og með rómantísku stefnunni. Það er allsendis óvíst að höfundur fjölyrði um
„áhrif“ þeirra sem hann laðast sterklega að - vegna þess að þeir ógna um leið
frumleika hans. Og svo getur einnig verið að áhrifavaldarnir séu honum „neð-
arlega" í huga, bældir eða ómeðvitaðir. Síðan er og til önnur hlið á þessu. Þegar
Halldór Laxness segir tuttugu árum eftir að Vefarinn kemur út að heilu kafl-
arnir í honum séu „en ren strindbergiade“ - en á þetta minnir Halldór Guð-
mundsson í grein sinni (203) - er hann að birta mat sitt á eigin verki eftir tals-
verð vatnaskil á ferlinum, en ekki að segja „sannleikann" um áhrif Strindbergs
á Vefarann. Eftir að hafa samið sín stóru epísku verk, frá Sölku Völku til Is-
landsklukkunnar, kýs hann að setja hinn óróasama Vefara í samband við höf-
undargildi August Strindbergs. Slíkar umsagnir verða bókmenntafræðingar að
meta sem vissa túlkun en ekki gleypa þær hráar.
Eg gagnrýndi Halldór fyrir notkun áhrifa-hugtaksins og vitnaði m.a. í máls-
276