Tímarit Máls og menningar - 01.03.1990, Side 103
er eitthvað að finna sem bendir fram til
„Ferðaloka“ en fær þar aðra og betri úr-
vinnslu. Hvað ljóðaháttinn áhrærir er að vísu
vikið beinum orðum að ástarunaði í kvæðum
undir ljóðahætti, Hávamálum, Skírnismálum
og Fjölsvinssmálum, og e.t.v. víðar, en vafa-
mál að það sé beinlínis tengt hættinum. Heitar
ástarjátningar eru undir fornyrðislagi í Helga-
kviðu Hundingsbana II og Guðrúnarkviðum.
Hvernig er staðið að verki?
Kvæði Jónasar eru hér eins og vera ber prent-
uð eftir eiginhandarritum eða síðustu prentun
sem gengið var frá meðan skáldið var á lífi. í
útgáfunni 1847 eru allmargar breytingar mið-
að við þessar heimildir, og hafa síðari útgef-
endur einatt tekið þær upp í textann, ekki síst
í þeirri trú að Jónas kunni sjálfur að hafa verið
búinn að gera þær eða staðfesta áður en hann
féll frá. Ymislegt hefur þó þótt tortryggilegt
og líklegra að Konráð hafi þar breytt í sam-
ræmi við eign smekk og málstefnu, og vænt-
anlega eigin hugmyndir um smekk Jónasar.
Hér eru þessar breytingar ekki teknar upp.
Það er tvímælalaust rétt stefna. Vissulega hef-
ur hún í för með sér að ýmsar breytingar sem
eru tvímælalaust til bóta eru aftur teknar, en
allt er að finna í athugasemdum í IV. bindi.
Oft er það svo að breytingar, sem síðari útgef-
endur hafa tekið upp, virðast síst til bóta og
ólíklegt að Jónas hefði lagt yfir þær blessun
sína. Hætta er samt á að eitthvað komist hér
inn í megintexta sem hafi aðeins verið penna-
glöp í upphafi og Jónas raunar verið búinn að
leiðrétta í þeim gögnum sem félagar hans
höfðu undir höndum, en matið á því verður
alltaf huglægt, og eðlilegt er að fylgt sé fastri
meginreglu í slíkri útgáfu. Sjálfsagt er þó
fyrir þá sem í framtíðinni ganga frá lestrarút-
gáfum á ljóðum Jónasar að nota skýringarnar
og meta hvort réttmætt sé að fylgja megin-
texta þessarar útgáfu.
Sem dæmi um texta þar sem ég mundi, í
lestrarútgáfu, fylgja prentuninni 1847 skal ég
taka kvæðið „Sumardagsmorguninn fyrsta
1828“, 1. erindi, 3. línu. Eiginhandarrit og
þessi útgáfa hafa vísuorðið þannig: lengur eg
ei ligg á dún, en í prentuninni frá 1847 stendur
lengur ligg eg ei á dún, sem fellur betur að
hrynjandi slíkra vísuorða í kvæðinu sem að
jafnaði hafa stuðla fremst í vísuorði og dálítið
lestrarhlé (cæsura) á undan 3. atkvæði, sbr. 1.
vísuorð, Flýttu fjalla yfir brún, og 5. vísu-
orðið: Þá skalt þú ei sjá hvað er. Sams konar
lagfæring hefur verið gerð á annarri línu og
virðist afar sennilegt að Jónas hafi breytt
þessu sjálfur. Stefnan í breytingunum er að
færa hrynjandi nær laginu, sem raunar er eftir
Bellman, eins og Matthías Þórðarson bendir
á en hér er ekki nefnt. Engin vissa er hins
vegar fyrir að Jónas hafi breytt þessu sjálfur,
svo að það er matsatriði hvort breytingunum
skuli fylgt. Stefna útgefenda virðist rétt af því
að þeirra útgáfa er fræðileg.
Orðskýringar við kvæðin eru ríkulegar og
virðast reyndar oft óþarfar. Verður ekki að
ætla lesendum, hversu ungir og óreyndir í
lestri bókmennta á eldri málstigum sem þeir
kunna að vera, að sjá að adregi er sama orð
og aldrei, ellegar nauðgur sama og nauð-
ugurl Vitaskuld er alltaf erfitt að meta hve
mikið á að skýra, en hér virðist mér of langt
gengið í því að gera ráð fyrir að lesandi geti
ekkr skilið neitt sem hann hefur ekki séð áður.
Eðlilegt er að skýra gull í „Sáuð þið hana
systur mína“, af því að þessi sérmerking orðs-
ins er nú orðin sjaldgæf, en getur það verið
nauðsynlegt að skýra fyrir íslenskum lesend-
um orðið hörpudiskurl Svo mikið er víst að
skýringin verður skelfing flatneskjuleg við
hliðina á orðinu: „skel (falleg tegund)" (IV,
123); „falleg orð“ hefði mátt bæta við!
Dálítið spaugilegar verða skýringarnar
stundum þegar kemur að kvæðum á dönsku.
Útgefendur hafa tekið þá stefnu að búa til eins
konar glósur við kvæðin, sem einna helst
virðast miðaðar við tilviljanakennda þekk-
ingu á borð við það sem vænta mætti hjá
nemanda í efstu bekkjum grunnskóla. En
markalínan er vanddregin. Hvaða stig
TMM 1990:1
101